149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[23:58]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst kannski seinni spurningin. Ég held reyndar að þessir fjórir flokkar, Viðreisn, Píratar, Samfylking og VG gætu alveg fundið sáttaleið í málinu. Enginn flokkur fengi kannski allt en allir fengju eitthvað. Hugsanlega væri hægt að fá Framsókn inn á tímabundna samninga. Að minnsta kosti hafa þeir talað þannig og eru, að eigin sögn, mikið fyrir landsbyggðina. Ég hugsa að alveg væri hægt að finna flöt á því.

En af hverju ræður Sjálfstæðisflokkurinn öllu? Ég veit það bara ekki. Hv. þingmaður hefur kannski reynslu af því. Ég var ekki gengin í Samfylkinguna þegar Samfylkingin fór í samstarf með Sjálfstæðisflokknum, ég hef því ekki reynsluna. En það er einhvern veginn eins og Sjálfstæðisflokkurinn hafi þessi áhrif á samstarfsflokkana, að þeir kikna bara í hnjáliðunum. Alla vega kemur það mér þannig fyrir sjónir.

En það má vera að ég líti þetta ekki raunsæjum augum. Það er bara af því að mig langar svo til að starfa með VG í ríkisstjórn sem ég læt svona. (Gripið fram í.) Það er væntanlega þess vegna. Þess vegna er svo sárt að þurfa að horfa upp á mína góðu félaga og eðlislíkan samstarfsflokk beygja svona illilega af vegi og taka upp þessa hörðu hægri stefnu.