149. löggjafarþing — 38. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[00:00]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég skil að henni svíði það nokkuð að geta ekki átt samneyti við VG í ríkisstjórn. Ég hugsa að það gæti verið dálítið gaman að vera með VG í ríkisstjórn.

En mig langar eiginlega að halda áfram aftur með VG. Ég á svo erfitt með að skilja þetta alveg til fulls. Þeir segja líka í stefnu sinni, með leyfi forseta:

„Endurúthlutun felst annars vegar í tímabundinni ráðstöfun leyfa“ — þarna kemur þessi tímabundna ráðstöfun, alveg klárlega — „og skal að hluta vera bundin útgerðarformum og veiðiaðferðum, og hins vegar í uppboði, að hluta bundin svæðum landsins og sveitarfélögum og þeim aðilum boðið að skilgreina leiðir til úthlutunar. Við endurúthlutun veitir ríkið leyfi þar sem skýrt er kveðið á um eignarhald þjóðarinnar, að kvótinn sé óframseljanlegur og það veiðigjald sem rukkað verður.“

(Forseti hringir.) Mér finnst þetta vera eins og lesið upp úr tillögum okkar sem ég minntist á áðan. Ég veit að það er mjög ósanngjarnt að biðja þingmanninn að túlka orð og hugsanir Vinstri grænna. En skilur hv. þingmaður þetta betur en ég?