149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

störf þingsins.

[13:32]
Horfa

Óli Björn Kárason (S):

Herra forseti. Við getum deilt um hin ólíklegustu mál en ég hygg að við getum líka sameinast um einhver. Þann 25. september sl. var lagt fram frumvarp til laga um endurgreiðslu til félagasamtaka til almannaheilla vegna mannvirkjagerðar. Því miður hefur ekki tekist að mæla fyrir því frumvarpi en að baki því standa þingmenn flestra flokka, úr Flokki fólksins, Samfylkingunni, Vinstri grænum, Framsóknarflokki og Sjálfstæðisflokki.

Markmiðið er að styðja við og stuðla að uppbyggingu á vegum félagasamtaka til almannaheilla en með frumvarpinu er lagt til að tekið verði upp sérstakt kerfi endurgreiðslna sem nemi virðisaukaskatti vegna mannvirkjagerðar en það er þó mannvirkjagerð sem ekki er lögbundin hvað varðar sveitarfélögin. Ég hygg að þetta sé mál sem við ættum, þegar loksins fæst að mæla fyrir því, en 1. flutningsmaður er Jón Gunnarsson, að geta náð ágætri samstöðu um. Þetta er líka í anda þeirra lýðheilsusjónarmiða sem við viljum hafa í heiðri hér, styðja við íþróttafélögin en líka styðja við önnur almannaheillafélög, svo sem eins og björgunarsveitirnar sem leggja á sig ómælda vinnu sem við fáum öll að njóta með beinum eða óbeinum hætti.

Ég skora á þingmenn og vona að þegar þetta mál kemur til kasta þingsins berum við gæfu til þess að sameinast um að afgreiða það eins fljótt og hægt er þannig að við sendum út (Forseti hringir.) þau skilaboð að við kunnum vel að meta þá miklu fórnfýsi sem fer fram á vegum björgunarsveitanna, á vegum íþróttafélaga og annarra félaga til almannaheilla.