149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Það birtust fréttir í gær þess efnis að Donald Trump Bandaríkjaforseti tryði ekki niðurstöðum skýrslu Bandaríkjastjórnar um loftslagsbreytingar, allt gert í þágu þess að taka til sín meiri völd og þeirra sérhagsmunaafla sem eru í kringum hann alltumlykjandi. Uppgangur þröngsýni, sérhagsmuna, verndar- og einangrunarhyggju og popúlisma hefur ekki látið heiminn ósnortinn, hvað þá Ísland. Búið er til ímyndað vandamál og það gert að úrlausnarefni, staðreyndir dregnar í efa og óvinur fundinn. Síðan er bent á einhverjar einfaldar lausnir sem búa til gjá og setja okkur í stöðuna við/þið, ekki saman. Við könnumst velflest við dæmi úr sögunni hvað þetta varðar. Það er bæði gömul saga og ný.

Við sjáum hvað er að gerast víða í Evrópu og nærtækasta dæmið er líklega í Bretlandi þar sem mjög sterk stjórnmálaöfl hröktust undan popúlistum innan breska sjálfstæðisflokksins, UKIP, og kannski líka innan eigin raða hjá íhaldsflokknum. En það eru líka labbakútar víða í Evrópu sem finna m.a. Evrópusambandinu allt til foráttu, sjá Evrópusambandið sem helstu fyrirstöðuna fyrir því að ná til sín völdum. Við verðum að hafa það hugfast að opnir markaðir, frelsi fyrir neytendur, fólk og fyrirtæki, opið samfélag er besta leiðin til að slík öfl verði hunsuð af almenningi. Við verðum að styðja við frjálsan markað, frelsi, frið og fleira, þannig að slík öfl nái ekki völdum til sín.

Hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson hefur bent á það, m.a. í dag, að við Íslendingar megum við ekki falla í þá gryfju að hörfa undan popúlistum af þessu tagi og við megum ekki ógna m.a. stórum og miklum hagsmunum eins og EES-samningnum með því að láta undan svona öflum sem við sjáum að eru að skjóta rótum víða í samfélaginu í dag innan ákveðinna flokka, innan að hluta til stjórnarflokkanna. Það eru að koma vond skilaboð frá stjórninni. Ef ríkisstjórnin er eitthvað smeyk við það (Forseti hringir.) að takast á við alþjóðaskuldbindingar sem tengjast m.a. EES-samningnum vil ég undirstrika það af hálfu Viðreisnar (Forseti hringir.) að við munum halda áfram að styðja öll sterk og góð mál frá ríkisstjórninni (Forseti hringir.) og við munum styðja m.a. við þriðja orkupakkann því að það er í þágu neytenda, það er í þágu íslensks samfélags (Forseti hringir.) að svo verði, ef það er til þess að hjálpa ríkisstjórninni.