149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

störf þingsins.

[13:37]
Horfa

Bryndís Haraldsdóttir (S):

Virðulegur forseti. Ég get tekið undir ýmislegt sem fram kom í máli þingmannsins hér á undan mér, sérstaklega þá sorglegu staðreynd að forseti Bandaríkjanna afneitar mikilvægi loftslagsmála og loftslagsbreytinga. Ég tek undir að við eigum öll að sameinast í þeirri baráttu og er algerlega fylgjandi EES-samningnum. Mér finnst mikilvægt að við hlúum vel að þeim samningi.

Ég ætlaði samt að fá að nota þennan tíma minn til að ræða annað. Ég lagði í haust í annað skipti fram þingsályktunartillögu um dánaraðstoð, ásamt meðflutningsmönnum úr flestum flokkum á þingi. Mér þætti vænt um að fá að komast að með þetta mál fljótlega, því að eins og ég segi hef ég mælt fyrir því áður og málið hefur farið til nefndar.

Þingsályktunartillagan gengur einfaldlega út á að fela heilbrigðisráðherra að afla gagna um stöðu þessara mála í löndum sem við berum okkur gjarnan saman við, bæði löndum sem leyft hafa dánaraðstoð og þeim löndum sem ekki hafa leyft hana en hafa þó tekið töluverða umræðu um þau mál.

Jafnframt gengur þingsályktunartillagan út á að fela ráðherra að gera skoðanakönnun meðal heilbrigðisstarfsmanna um hug þeirra til dánaraðstoðar; annars vegar hvort heilbrigðisstarfsmenn séu hlynntir henni í mjög ákveðnum tilfellum og hins vegar hvort heilbrigðisstarfsmenn væru tilbúnir að koma að slíku.

Umræðan um dánaraðstoð hefur verið töluverð í samfélaginu á síðustu misserum. Það hafa verið haldnar góðar ráðstefnur og málþing um málið og hafa hér verið stofnuð frjáls félagasamtök utan um þetta mál.

En ég vil ítreka að þessi þingsályktunartillaga er ekki hugsuð til að draga okkur í dilka um hvort við séum hlynnt því að leyfa hér dánaraðstoð eða ekki, heldur eingöngu að kalla fram þessar upplýsingar svo við getum í kjölfarið tekið málefnalega umræðu um hvort okkur finnist eðlilegt að breyta lögum á Íslandi, eins og sum ríki hafa gert í kringum okkur. Ég vona svo innilega að við fáum tækifæri fljótlega til að ræða það á yfirvegaðan og málefnalegan hátt.