149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

störf þingsins.

[13:44]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V):

Herra forseti. Ríkisstjórnin kynnti í dag áform um að stofna hér nýjan átakshóp til aðgerða í húsnæðismálum. Það er auðvitað fagnaðarefni að ríkisstjórnin, um ári eftir að hún tók við völdum, hafi áttað sig á því að það væri kannski eitthvert vandamál á ferðinni. Það er hins vegar dálítið kómískt að sjá að meðulin sem gripið er til eru hefðbundin meðul þessarar ríkisstjórnar. Það er rokið til og skipaður starfshópur og sá starfshópur þarf að sjálfsögðu að hafa samráð við aðra starfshópa sem eru starfandi í húsnæðismálum þá stundina og ætlað að skila tillögum hið snarasta.

Það vill svo til að sú ríkisstjórn sem var á undan þessari hafði áttað sig á þeim vanda fyrir allnokkru síðan, skipað um hann starfshóp, skilað niðurstöðum um það fyrir einu og hálfu ári síðan í fordæmalausu samráði og samstarfi við sveitarfélögin, sem eru veigamesti aðilinn í því að leysa húsnæðisvanda á bæði höfuðborgarsvæðinu og í nágrannabyggðum höfuðborgarsvæðisins.

Það verður hins vegar ekki séð að þessi ríkisstjórn hafi gert nokkuð með þær tillögur þrátt fyrir að henni hafi nokkrum sinnum verið bent á að það gætu verið ágætishugmyndir þar til lausnar á húsnæðisskorti á höfuðborgarsvæðinu. Nei, ríkisstjórnin raknaði úr rotinu ári síðar og skipaði starfshóp. Það er vissulega vel.

Ég hef þó ekki mjög mikla trú á þeim starfshópi ríkisstjórnarinnar, ekki frekar en öðrum starfshópum. Það nefnilega virðist afskaplega lítið komast til framkvæmda hjá þessari blessuðu ríkisstjórn. Henni tekst ekki að leggja mál sín fram samkvæmt áætlun, ekki nema að hálfu leyti í besta falli, og ég óttast að það verði örlög starfshópsins eða tillagna hans að fáar þeirra komist nokkurn tímann til framkvæmda. Ég hygg reyndar að sá vandi muni hafa leyst sig sjálfur áður en ríkisstjórnin kemst að þeirri niðurstöðu hvernig best sé að leysa hann, slíkt er verkleysi ríkisstjórnarinnar. (Forseti hringir.) Þetta er leiktjaldaríkisstjórn, ekki framkvæmdaríkisstjórn.