149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

störf þingsins.

[13:47]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Þann 7. nóvember sl. mælti ég fyrir þingsályktunartillögu um stofnun lýðháskóla Ungmennafélags Íslands á Laugarvatni. Ég kem hér til að koma á framfæri leiðréttingu við greinargerð og ræðu um stofnun lýðháskóla Ungmennafélags Íslands á Laugarvatni.

Í greinargerð tillögunnar kemur eftirfarandi fram:

„Nú hefur Dalabyggð selt eignirnar að Laugum og óvissa er uppi um hvað við tekur.“

Hafði ég þessa setningu í greinargerð eftir í framsöguræðu um málið. Nú hef ég fengið ábendingu um að þetta sé bara alls ekki rétt, þ.e. að Dalabyggð hafi selt eignirnar að Laugum. Það rétta er að það hefur staðið til en ágreiningur hefur verið um það og ekki orðið af því.

Ég vil með þessari ræðu koma á framfæri leiðréttingu þessa efnis. Það er sem sé ekki — ég ítreka ekki — rétt að búið sé að selja Laugar í Sælingsdal. Ég bið jafnframt hlutaðeigandi og þá sem með þessar eignir fara afsökunar á þessu og vona að það hafi ekki valdið vandræðum eða óþægindum að ég hafi farið rangt með það.

Ég kem því svo hér með á framfæri við hv. allsherjar- og menntamálanefnd að hafa það til hliðsjónar við umfjöllun málsins að koma leiðréttingu þessa efnis að í nefndaráliti komi málið til 2. umr., það kemur fram í greinargerð að koma því að í nefndaráliti. Ég vil þó ítreka hér að meginefni þingsályktunartillögunnar er stofnun lýðháskóla á Laugarvatni og nýting mannvirkja þar og tryggja, með aðkomu Ungmennafélags Íslands, samnýtingu við rekstur ungmennabúða og eftir atvikum annarra viðburða eins og sumarbúða. Sá vilji og ásetningur flutningsmanna tillögunnar hefur ekkert breyst.