149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

störf þingsins.

[13:49]
Horfa

Ágúst Ólafur Ágústsson (Sf):

Herra forseti. Mig langar að ræða hér mál sem er sjaldan rætt í þingsölum en það er dýravernd. Rannsóknir undanfarinna áratuga sýna að dýr hafa margs konar meðvitund og skynja illa meðferð. Nauðsynleg vitundarvakning hefur sem betur fer átt sér stað undanfarin ár þegar kemur að dýravernd, neyslu dýraafurða og vinnu sjálfboðaliða, svo sem gagnvart dýrum eins og villiköttum. Þá hafa kröfur um bættan aðbúnað aukist. Skemmst er að minnast umfjöllunar fjölmiðla um Brúnegg.

Við sem neytendur eigum að gera skýlausa kröfu um góðan aðbúnað dýra en sé slíkt ekki fyrir hendi eigum við hiklaust að beina viðskiptum okkar annað. En til þess að við getum tekið þá ákvörðun verðum við að hafa upplýsingar um stöðuna hjá einstökum matvælaframleiðendum. Því skiptir eftirlitið miklu máli. Ég er fullkomlega fylgjandi því að fjölmiðlar sýni oftar hvernig staðið er að ræktun húsdýra, meðferð þeirra og slátrun. Við skulum ekki fela raunveruleikann og halda að kjötið verði til í Krónunni.

Ísland er mikill framleiðandi matvæla en Ísland á einnig að vera í fararbroddi í dýravernd. Við eigum að hafa strangar kröfur um aðbúnað húsdýra og taka skýra afstöðu gegn hvers konar grimmd gegn dýrum, svo sem nautaati, óþarfa dýratilraunum og tilgangslausum sportveiðum á sjaldgæfum dýrum — en einnig taka afstöðu gegn stórhvalaveiðum sem jafnvel má flokka sem tilgangslausar sportveiðar eins manns hér á Íslandi.

Herra forseti. Maðurinn er ekki eina dýr jarðar og okkur ber siðferðisleg skylda til að huga að öðrum íbúum þessara plánetu.

Að lokum ætla ég að leyfa mér að spá því fyrir að barnabörn minnar kynslóðir muni furða sig á kjötáti okkar tíma. Þótt sá sem hér stendur borði enn þá sitt kjöt er alveg ljóst að kjötframleiðsla er dýr, bæði efnahagslega og umhverfislega. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)