149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

störf þingsins.

[13:54]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Herra forseti. Ég tel nauðsynlegt að bregðast örstutt við ræðu hv. þm. Þorsteins Víglundssonar áðan, ekki til þess að standa í einhverju þrasi við hann eða reyna að svara með einhverjum hætti hótfyndni sem kom fram í hans ræðu um aðgerðir ríkisstjórnarinnar á sviði húsnæðismála. Ég kýs frekar að nálgast málið með þeim hætti að þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á þeirri samþykkt ríkisstjórnarinnar að setja á fót sérstakan átakshóp sem er ekki bara átakshópur stjórnvalda heldur líka samráðshópur við sveitarfélögin og vinnumarkaðinn um aðgerðir á sviði húsnæðismála.

Ég held að menn þurfi að horfa á það að í aðdraganda kjarasamninga sem eru handan við hornið munu húsnæðismálin skipta verulegu máli. Ég skil yfirlýsingu hæstv. ríkisstjórnar frá því í morgun svo að með þessum átakshópi séu menn að tryggja samráð við aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélögin, lykilaðila í þessu sambandi, til þess að ná sameiginlegum skilningi og sameiginlegum stefnumálum á þessu mikilvæga sviði í tengslum við aðdraganda kjarasamninga. Ég held að það sé ástæðulaust að gera lítið úr því verkefni. Það er ljóst að ríkisstjórnin ætlar að setja kraft í þetta. Það er gert ráð fyrir því að þessi hópur skili af sér 20. janúar, eftir einn og hálfan mánuð, þannig að ef hv. þingmaður eða aðrir hv. þingmenn hafa áhyggjur af því að hér sé verið að svæfa mál í nefnd eða drepa málinu á dreif er ekkert eins fjarri sanni og við sjáum af verksviði og verkefni þessa starfshóps. Ég held að þetta sýni að ríkisstjórnin tekur þetta viðfangsefni alvarlega og er reiðubúin að ræða við bæði aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélögin (Forseti hringir.) um lausnir og stefnumótun á þessu sviði.