149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

störf þingsins.

[13:56]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Herra forseti. Ég er talsmaður barna fyrir þingflokk Pírata. Það er á vegum UNICEF, Barnaheilla og umboðsmanns barna. Við sem tökum að okkur að gegna þessari stöðu lofum því að hafa barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, sem eru lög á Íslandi, að leiðarljósi í starfi okkar. Til þess að geta gert það og þar af leiðandi tryggt að réttindi barna séu í forgangi, eins og segir í lögunum, hef ég farið í þá vegferð að grennslast fyrir um og fá það alveg kýrskýrt fram hver sé ábyrgur fyrir réttindum barna. Lögin eru til staðar og framkvæmdarvaldið er ábyrgt fyrir því að framfylgja þeim. Það eru þó mjög margar brotalamir varðandi það að framfylgja lögunum.

En nú hefur Katrín Jakobsdóttir, hæstv. forsætisráðherra, farið af stað með verkefni um gagnaöflun til þess að geta gert það betur. Til þess að við í þinginu, sem höfum eftirlit með framkvæmdarvaldinu, getum unnið vinnu okkar af heilindum þegar kemur að réttindum barna er nauðsynlegt að við vitum hvaða ráðherra eða annað stjórnvald er ábyrgt fyrir að tryggja innleiðingu réttinda barna eins og þau birtast í lögum. Þar eru brotalamirnar.

Ég spurði því ráðherra óformlega og þeir vísuðu svolítið hver á annan. Ég spurði síðan forseta Íslands, af því að það er forseti Íslands sem ákveður með forsetaúrskurði sínum, með undirskrift sinni, sem er forsetaúrskurður að frumkvæði forsætisráðherra, hvaða ráðherra fer með hvaða málefni og hefur þar af leiðandi ábyrgð á þeim.

Forsetinn var að senda mér bréf til baka með svari, ég bjóst nú alveg við að það mundi vera svona. Jú, jú, ég skrifa undir bréfið og svona, en þar er mér óskað velfarnaðar í þessu starfi. Það er þó ekki ég sem þarf að svara þessu. Ég er búinn að tala við hæstv. forsætisráðherra, Katrínu Jakobsdóttur, um þetta og sagði að ég myndi senda henni formlega fyrirspurn. Það mun ég gera þannig að við fáum það alveg á hreint hvar ábyrgðin liggur, þannig að þegar börn eins og Filip, sem er eins árs og ekki með réttindi eins og önnur börn af því að hann er ekki með dvalarleyfi þó að foreldrar hans séu með dvalarleyfi sem námsmenn, lendi ekki utan við kerfið. Þar er brotalöm. Hver á að tryggja réttindi hans meðan verið er að laga hlutina? Og börn sem verða fyrir einelti í skólum? (Forseti hringir.) Hver á að tryggja réttindi þeirra? Það þurfum við að fá skýrt fram í þessari vinnu.

Næsta skref er þá að tala beint við forsætisráðherra og til ráðherranna. Ég er líka búinn að senda dómsmálaráðherra og félagsmálaráðherra bréf. Þetta munum við á endanum fá á hreint.