149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

störf þingsins.

[13:58]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Hæstv. forseti. Í nýlegri blaðagrein eftir Ara Skúlason hagfræðing kemur fram að hlutfallsdeild Lífeyrissjóðs bankamanna hefur stefnt ríkissjóði og þeim fyrirtækjum sem sjóðsfélagar vinna hjá vegna ófullnægjandi uppgjörs á skuldbindingum. Þessi hlutfallsdeild var stofnuð við fyrri einkavæðingu Landsbankans og var það gert um leið og ábyrgð var aflétt af lífeyrisskuldbindingum til að gera bankann söluvænni við einkavæðingu.

Þessi hlutfallsdeild er ekki fjölmenn. Í lok árs 2017 voru lífeyrisþegar þar 999, þar af 691 kona. Meðalaldur lífeyrisþega var 74 ár og meðallaun rétt rúmar 200.000 kr. Greiðandi sjóðfélagar voru 155, þar af 128 konur. Meðalaldur greiðandi sjóðfélaga var 60 ár og meðaltal mánaðarréttinda til lífeyris rúmar 297.000 kr.

Við síðari einkavæðingu bankanna árið 2008, þar sem nokkur hópur stjórnenda bankans fékk 1,7% bankans í morgungjöf frá þáverandi fjármálaráðherra, var gert samkomulag við þáverandi bankastjóra, aðstoðarbankastjóra og maka þeirra um áhyggjulaust ævikvöld, en hlutfallsdeildin hefur ekki fengið, að dómi þeirra sem þar um véla, réttláta málsmeðferð sem bitnar á þessum 999 manna hópi, 691 konu. Svo vill til að það lítur þannig út að kostnaðurinn við einkavæðinguna hafi verið borinn uppi af þessum breiðu bökum gjaldkera, mest kvenna, sem störfuðu hjá gamla Landsbankanum hér áður. Þetta er náttúrlega hróplegt og það verður að ætlast til þess að fjármálaráðherra, (Forseti hringir.) sem ekki hefur hingað til sinnt því að svara erindum þessa hóps, geri það og Landsbankinn semji við þennan hóp.