149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

störf þingsins.

[14:01]
Horfa

Inga Sæland (Flf):

Virðulegi forseti. Í morgun heimsótti mig ung kona sem missti föður sinn í janúar sl. vegna alzheimers. Við þekkjum öll hversu alvarlegur og skelfilegur sá sjúkdómur er. Talið er að 60–70% allra þeirra sem eru með heilabilun fái alzheimer.

Ég var að lesa grein sem öldrunarlæknir Landspítalans, Steinunn Þórðardóttir, skrifaði í vor þar sem hún talaði um þá skelfilegu stöðu sem ríkir í þessum málaflokki sem virðist í rauninni einkennast af stefnuleysi þar sem um 200 einstaklingar eru á bið.

En mig langar til að nefna það sem þessi unga kona sagði við mig í morgun þegar hún var að tala um hvernig hún og fjölskylda hennar hefðu reynt að stíga inn í og halda virkni föðurins eins lengi og kostur var með því að fá hann til að gera ýmsa hluti. Hún talaði um hvað það væri ótrúlegt að sjá neistann kvikna í annars sorgmæddum augum þessara einstaklinga þegar þeir fengu í hendurnar jafnvel sandpappír og kubb til þess að pússa eða hvað sem er, lita, mála, fá myndir af fólkinu sínu, halda á mynd og skrifa nöfnin á ástvinum sínum við hana og ýmislegt og annað.

Hún sagði að þetta hægði mikið á sjúkdómnum og veitti ákveðna gleði. Og hvað getum við gert? Hvað erum við að gera til að reyna að halda fólkinu okkar virku sem lengst og reyna að gera því lífið bærilegt sem lengst? Við vitum líka að alzheimersjúkdómurinn er dauðans alvara og leiðin er einungis ein. Ég veit að þessi unga kona hefur reynt að ná sambandi við velferðarráðherra og heilbrigðisráðherra en hún nær engu sambandi við neinn. Þannig að ég segi:

Þetta er í okkar höndum, kæru alþingismenn og kæru fulltrúar fólksins í landinu. Það er í okkar höndum að móta skýra stefnu og hjálpast að við að gera fólkinu okkar, sama hvað það er gamalt, sama af hverju það er veikt, lífið sem bærilegast sem lengst því að það er alveg ljóst að öldruðum á einungis eftir að fjölga.