149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

störf þingsins.

[14:03]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Herra forseti. Ég hef stundum rætt um náttúruvá í þessum ræðustól og talað um hamfarasjóð og flóðavarnir, vöktun eldgosa o.fl. Það er af nógu að taka undanfarin tvö til þrjú ár. Það eru fimm megineldstöðvar sem sýna merki um óróleika og kvikusöfnun og skriðuhætta og berghlaupshætta eykst með breyttri úrkomu og hlýindum. Ágangur jökulvatna eykst af sömu orsökum.

Eins og allir vita starfar almannavarnadeild undir embætti ríkislögreglustjóra. Það er spurning hvort umsvif allra hlutaðeigandi og undirbúningur að viðbrögðum við alvarlegum atburðum séu eins og vera ber. Ég vil hvetja til þess að staðan í heild verði skoðuð og yfirfarin, að fjármagn til vöktunar verði endurskoðað, að viðbragðsáætlunum og brottflutningsáætlunum sé lokið og þær æfðar og að þeir sjóðir sem eiga að vera til taks séu efldir. Styrkja ber sérþekkingu og mannafla almannavarnadeildarinnar og það þarf að kanna, sem er kannski mikilvægasti punkturinn, hvort ekki eigi að færa almannavarnadeildina, Almannavarnir ríkisins, undir forsætisráðherra og þar með efla alla samhæfingu í þeim geira. Einnig þarf að fjölga í því sem við köllum launaðan miðkjarna björgunarsveitanna. Það er nú einu sinni þannig að frammi fyrir öllu þessu bíða svona verkefni sem þarf að taka til og reynslan sýnir að best eru ráðin sem í tíma eru tekin. Í þeim efnum er tíminn nefnilega alls enginn sérstakur vinur okkar.