149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[14:08]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Við ræðum frumvarp um veiðigjald í annað sinn á þessu ári. Í annað sinn á þessu ári er ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur að leggja til að við lækkum þann arð sem útgerðinni er ætlað að greiða þjóðinni fyrir nýtingu af auðlind hennar og í annað sinn byggir málflutningur ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur og stjórnarmeirihlutans á því að létta þurfi álögum af litlum og meðalstórum útgerðum í landinu.

Herra forseti. Ég man ekki eftir því að mikið hafi verið rætt um það fyrir síðustu kosningar af frambjóðendum Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs að létta álögum af útgerð í landinu, eða eins og hv. þingmaður og formaður atvinnuveganefndar, Lilja Rafney Magnúsdóttir, sagði um lækkun veiðigjalda árið 2013, með leyfi forseta:

„Ég held ekki að talað hafi verið fyrir því víða og mér þætti gaman að vita hvaða þingmaður hér inni hefur talað fyrir því, hv. þingmaður sem situr á þingi nú, að eitt af því brýnasta sem yrði gert á sumarþingi væri að lækka álögur á útgerðir í landinu. Þá væri gaman að fara í andsvör við þann þingmann.

Svona er það, sumt er sagt fyrir kosningar og annað framkvæmt eftir kosningar, það er gömul saga og ný, en þessi forgangsröðun er auðvitað algjörlega með ólíkindum. Mér finnst sem kjósanda í þessu landi að þjóðinni hljóti að misbjóða að þetta sé fyrsta forgangsverkefni þessarar blessuðu hæstv. hægri ríkisstjórnar.“

Núverandi ríkisstjórn beið raunar þar til sveitarstjórnarkosningar voru afstaðnar áður en hún kynnti sérstakan gjafapakka fyrir útgerðarmenn, enda óþægilegt að birta slíkar fyrirætlanir fyrir kosningar. En rök hv. þingmanns eldast nokkuð vel þótt ekki virðist þau endast í höfði formanns atvinnuveganefndar við stjórnarskiptin.

Færum okkur aðeins nær í tíma og rifjum upp hvað formaður hv. þingmanns, hæstv. forsætisráðherra, Katrín Jakobsdóttir, sagði á RÚV í Forystusætinu þann 11. október 2017, rúmum tveimur vikum fyrir síðustu alþingiskosningar, með leyfi forseta:

„Ég tel bara að þessi gjöld hafi verið lækkuð allt of skarpt og ég held að þau geti skilað sér betur án þess að það ógni hagsmunum útgerðarinnar í landinu. Ég meina, horfum bara á þær arðgreiðslur sem hafa verið að fara út úr stórum útgerðarfyrirtækjum á undanförnum árum upp á hundruð milljóna. Finnst okkur þetta eðlilegt?“

Nei, herra forseti, okkur finnst þetta einmitt ekki eðlilegt, enda sýna ársreikningar stærstu 20 sjávarútvegsfyrirtækjanna að eigendur þeirra gátu greitt sér út 23 milljarða kr. í arð árið 2017. Sjö aðaleigendur þriggja stærstu útgerðarfyrirtækjanna þénuðu samtals 5,9 milljarða í fjármagnstekjur á árinu. Það eru tæplega 850 milljónir á mann á einu ári.

En ríkisstjórninni finnst ekki nóg að lækka álögur á útgerðina, hún beinlínis hannaði bakdyr að löggjöfinni þannig að lögaðilar geti borgað minna til samfélagsins en lagt er upp með. Ekki nóg með það, heldur er búið að benda á þessar bakdyr í fjölmörgum umsögnum í umfjöllun atvinnuveganefndar en meiri hluti nefndarinnar hefur eftir sem áður engin áform um að loka þeim.

Í umsögn Samkeppniseftirlitsins segir, með leyfi forseta:

„Í tilefni af því frumvarpi sem nú er til umsagnar hjá atvinnuveganefnd Alþingis vill Samkeppniseftirlitið minna á álit sem eftirlitið beindi til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins …

Í álitinu var sérstaklega fjallað um áhrif verðlagningar sjávarafla hjá lóðrétt samþættum útgerðum sem nánast án undantekninga notast við viðmiðunarverð Verðlagsstofu skiptaverðs sem iðulega hefur reynst mun lægra en markaðsverð á fiskmörkuðum. Með því kann vinnsluhluti samþættrar útgerðar að standa betur að vígi í samkeppni við fiskvinnslu án útgerðar sem þarf að kaupa stóran hluta hráefnis til vinnslunnar á fiskmörkuðum. Eins standa útgerðir sem ekki stunda fiskvinnslu og selja afla sinn á markaði verr að vígi gagnvart samþættum útgerðum sem miða við umrætt viðmiðunarverð í innri viðskiptum milli rekstrarþátta.“

Að sama skapi segir í umsögn Heiðveigar Maríu Einarsdóttur, með leyfi forseta:

„Því er harðlega mótmælt að vinnsla skuli tekin út úr gjaldstofni til veiðigjalds þar sem það gefur aukið svigrúm til þess að lækka uppgjörsverð til sjómanna til þess að lágmarka gjaldstofn til útreiknings á veiðigjaldi og gefur þar af leiðandi gjaldendum aukið svigrúm til þess að taka hagnaðinn fremur út úr vinnslunni.“

Þá segir Þórólfur Matthíasson í umsögn sinni, með leyfi forseta:

„Sjómenn hafa lengi talið verðlagningu í viðskiptum milli tengdra aðila í útgerð og vinnslu vera þannig háttað að það hafi haft neikvæð áhrif á hlutaskipti þeirra. Reyndar er það svo að fyrirtækjum í eigu skyldra aðila er skylt að haga verðlagningu sín á milli eins og um óskylda aðila væri að ræða samkvæmt skattalögum … Beita skal svokallaðri armslengdarreglu. Ekki virðast þó skýr fyrirmæli skattalaga duga til að halda verðlagningu í viðskiptum skyldra aðila í útgerð og vinnslu þannig að hagsmunaaðilar séu sáttir við framkvæmdina. …

Verði frumvarpið að lögum með óbreyttum ákvæðum hvað þetta varðar munu útgerðarmenn fá viðbótarhvata til að verðleggja fisk í innbyrðis viðskiptum á sem lægstu verði. Slík aðgerð myndi bæði lækka launakostnað og framtíðarveiðigjald!“

Í grein sinni í Kjarnanum segir Indriði H. Þorláksson, með leyfi forseta:

„Hvati er þegar fyrir hendi til vanreiknings á söluverði með milliverðlagningu, m.a. vegna tengingar launa sjómanna við fiskverð en getur einnig verið fyrir hendi af skattalegum ástæðum o.fl. Með því að láta ranga milliverðlagningu einnig hafa áhrif á veiðigjöld verður þessi hvati sterkari en áður. Það að taka ekki þá rentu sem flutt er til fiskvinnslu eða sölu með í útreikning veiðigjalda mun því ekki aðeins ræna þjóðina hluta auðlindarentunnar heldur einnig þrýsta fiskverði niður og rýra þannig hlut sjómanna og sjálfstæðra útgerða sem eru háð sölu afurða til keppinauta sinna.“

Forseti. Af þessum umsögnum er augljóst að ef fiskvinnsla er tekin út úr útreikningum um veiðigjöld, eins og meiri hlutinn leggur til, er hann að galopna á bókhaldsbrellur til að halda afurðaverði niðri milli útgerðar og fiskvinnslu. Afleiðingin er ekki bara lægri veiðigjöld heldur geta þessar bókhaldsbrellur bitnað á launum sjómanna en þau reiknast út frá afurðaverði. Tekjur sjómanna lækka, arðgreiðslur til útgerðareigenda aukast enn þá meira en nú er og samfélagið verður af eðlilegri rentu af sameiginlegum auðlindum þjóðarinnar.

Að mínu viti er það einnig augljóst, herra forseti, að stóriðjan á Íslandi, stórfjármagnseigendur og eigendur íslensku útgerðarinnar kunna að haga sínum fjármálum þannig að þeir greiði lægsta mögulega gjaldið til samfélagsins, að þeir skili sem mestum hagnaði og þeir greiði sjálfum sér sem mestan arð, eða eins og hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir komst einmitt svo vel að orði í umræðu um lækkun veiðigjalda árið 2014, með leyfi forseta:

„Þannig er nú það. Það hefur verið mjög auðvelt, held ég, í gegnum tíðina að koma hagnaði fyrir einhvers staðar í staðinn fyrir að menn greiði eðlilega skatta til samfélagsins.“

Dæmin sýna að hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir hefur hér rétt fyrir sér. Ég kann ekki sjálf þessi bókhaldstrikk, herra forseti, sem vísað er til en við höfum séð það af fjölmiðlaumfjöllun, eins og Reykjavik Media sýndi fram á í umfjöllun sinni um Panama-skjölin, að útgerðin kann þessi bókhaldstrikk. Svo að ég nefni dæmi máli mínu til stuðnings var eftirfarandi aðila að finna í íslenskum sjávarútvegi í umfjöllun Reykjavik Media, í stafrófsröð, með leyfi forseta:

Árni Stefán Björnsson, fjárfestir og eigandi smábátaútgerðarinnar Rakkanes ehf., tengist Ocean Wealth Capital og Arctic Circle Invest á Tortólu.

Berglind Björk Jónsdóttir, eigandi Sjólaskipa, tengist Stenton Consulting á Tortólu.

Björgvin Kjartansson, eigandi fiskverkunar- og útflutningsfyrirtækisins Hamrafells í Hafnarfirði, tengist World Wide Seafood and Trading Consulting á Tortólu.

Ellert Vigfússon, eigandi og framkvæmdastjóri hjá fiskútflutningsfyrirtækinu Icelandic Group og Sjóvík, tengist Elite Seafood Panama Corp. í Panama, Sorell Holding Promotion, Norys Capital og Becot Holding á Tortólu, Godthaab í Nöf ehf., fiskútflutningsfyrirtæki í Vestmannaeyjum, hluthafi í Arctic Circle Invest á Tortólu í gegnum félagið Nafarfoss ehf.

Guðmundur Jónsson, eigandi Sjólaskipa, tengist Champo Consulting Limited á Tortólu.

Gunnlaugur Sævar Gunnlaugsson, fjárfestir og stjórnarformaður Ísfélagsins í Vestmannaeyjum, tengist Tantami Venture og Tetris Estate á Tortólu.

Gunnlaugur Konráðsson, hrefnuveiðimaður, tengist Maser Shipping og Arctic Circle Invest á Tortólu.

Jakob Valgeir Flosason, útgerðarmaður hjá Jakobi Valgeiri í Bolungarvík, tengist Aragon Partners í Panama.

Jón Guðmundsson, eigandi Sjólaskipa, tengist Sarin Systems Ltd. á Tortólu.

Kristján Vilhelmsson, hluthafi og útgerðarstjóri Samherja, tengist Hornblow Continental Corp. á Tortólu.

Laufey Sigurþórsdóttir, eigandi fiskverkunar- og útflutningsfyrirtækisins Hamrafells í Hafnarfirði, tengist World Wide Seafood and Trading Consulting á Tortólu.

Marinella R. Haraldsdóttir, eigandi Sjólaskipa, tengist Sarin Systems á Tortólu.

Ragnheiður Jóna Jónsdóttir, eigandi Sjólaskipa, tengist Aurora Contintenal Limited á Tortólu.

Sigurður Gísli Björnsson, eigandi fiskútflutningsfyrirtækisins Sæmarks, tengist Freezing Point Corp. í Panama.

Theódór Guðbergsson, fiskverkandi og skipasali í Garði á Reykjanesi, tengist Huskon International í Panama og Arctic Circle Invest á Tortólu.

Valborg María Stefánsdóttir, eiginkona Gunnlaugs Konráðssonar, tengist Maser Shipping á Tortólu.

Þorsteinn Vilhelmsson, fjárfestir og einn stofnandi Samherja, átti viðskipti við Cliffs Investments á Tortólu.

Örn Erlingsson, eigandi útgerðarfyrirtækjanna Unga ehf. og Sólbakka, er eigandi Arctic Circle Corp. í Panama.

Eins og sést á þessum lista hefur sjávarútvegurinn undanfarin ár dælt út arði í tugmilljarðatali. Þessir fjármunir fara beint í vasa eigendanna og stundum í aflandsvasa þar sem peningarnir eru í skjóli fyrir íslenskum yfirvöldum. Þetta eru verðmætin sem við eigum að fá af sameiginlegri auðlind þjóðarinnar. Þetta er nú öll auðlindarentan.

Við Píratar mótmælum þess vegna þessum bakdyrum, þessum vinnubrögðum við frumvarpið og við styðjum ekki að það verði afgreitt í sinni núverandi mynd, enda var ekkert samráð haft við minni hlutann, við almenning í landinu eða við nokkurn sem skiptir máli, nema kannski útgerðina við meðferð þessa máls.

Af því tilefni langar mig að rifja upp nokkur orð sem eru oft rifjuð upp í þessum sal enda oft ærið tilefni til, inngangsorð úr stefnuskrá núverandi ríkisstjórnar um samráð og samstarf. Þar kemur fram, með leyfi forseta:

„Allar áætlanir sem eiga að halda til lengri framtíðar þarf að gera í auknu samráði og með bættum samskiptum. Efla þarf samstarf milli flokka á Alþingi, styrkja sjálfstæði þingsins, umbúnað þess, faglegan stuðning og stöðu. … Loks þarf að treysta enn samráð og stuðning við sveitarfélög að því er varðar uppbyggingu innviða, byggðaþróun og fjármálaleg samskipti.

Óvenjulegar aðstæður kalla á breytt vinnubrögð, opnari stjórnsýslu, gagnsæi og virðingu gagnvart verkefnum. Það er vilji flokkanna sem nú taka þátt í samstarfi um ríkisstjórn og eflingu Alþingis að nálgast verkefnin með nýjum hætti í þágu alls almennings í landinu, ekki síst með því að styrkja Alþingi með markvissum hætti og auka áhrif þess.“

Nú var það svo, herra forseti, að við fengum kynningu á þessu veiðigjaldafrumvarpi hæstv. sjávarútvegsráðherra sama dag og frumvarpið var kynnt fyrir fjölmiðlum, sama dag og frumvarpið var lagt fram á Alþingi. Ég man ekki til þess að hæstv. sjávarútvegsráðherra hafi verið viljugir að svara um nokkurn skapaðan hlut fyrir útgáfu þessa frumvarps um hvað það myndi fela í sér, hvort það myndi fela í sér hækkun á veiðigjaldi, lækkun á veiðigjaldi eða hvað hann eiginlega ætlaði sér í þessu þrátt fyrir fögur fyrirheit hæstv. ráðherra í sumar þegar átti að reyna að þröngva í gegn lækkun veiðigjalda um að hér færi fram samráð, að málið yrði unnið yfir sumarið og það kæmi svo hér vonandi í breiðari sátt, ef ég man rétt, inn í þingið.

Málið var eftir sem áður ekki sett í samráðsgátt ríkisstjórnarinnar, nýtt tæki sem ríkisstjórnin, veit ég til, hefur að vinnureglu að skuli nota til að leita samráðs við almenning við alla lagasetningu, við öll stjórnarfrumvörp nema einhverjar sérstakar ástæður mæli gegn því. Þrátt fyrir að hafa kallað eftir því man ég ekki til þess að hafa fengið nokkur skýr svör frá hæstv. sjávarútvegsráðherra um hvers vegna samráðsgáttin var ekki virkjuð í þessu tilfelli. Þar hefðu m.a. þær umsagnir sem ég las upp hér áðan mögulega komið aðeins fyrr fram og þá hefði myndast kannski smáhvati til að loka þessum umræddu bakdyrum. En það er þó ekki svo.

Í samráðskafla greinargerðar með frumvarpinu sem við ræðum í dag kemur fram, með leyfi forseta:

„Undirbúningur frumvarpsins mótaðist að miklu leyti af þeirri gagnrýni sem áður hafði komið fram á gjaldstofn gildandi laga og niðurjöfnun þess gjalds, m.a. um fyrirsjáanleika, næmni í breytingum á afkomu sem og því hvernig mætti afmarka stofn veiðigjalds við borðstokk í stað þess að horfa til rekstrar í sjávarútvegi í heild, þ.e. bæði veiða og vinnslu. Við undirbúning frumvarpsins voru sjónarmið helstu hagsmunasamtaka atvinnurekenda og launþega í sjávarútvegi þekkt og nýttust til umræðu við meðferð og undirbúning frumvarpsins. Þá hefur mikið samráð átt sér stað innan stjórnsýslunnar um málið. Hins vegar gafst ekki tími til að hefja opið samráð um frumvarpið á stjórnsýslustigi en gert er ráð fyrir að atvinnuveganefnd Alþingis muni viðhafa slíkt ferli við þinglega meðferð frumvarpsins.“

Viðhorf helstu hagsmunaaðila voru kunn, að mati hæstv. sjávarútvegsráðherra, við undirbúning frumvarpsins en eftir sem áður bendir Samkeppniseftirlitið okkur á að hér sé um að ræða stórhættulega bakdyraleið og einmitt stórhættulegan hvata fyrir samþættar vinnslur og útgerðir að skjóta undan fé frá auðlindagjöldum. Þetta virðist ekki hafa verið tekið með í reikninginn þrátt fyrir að mér sýnist á umsögn Samkeppniseftirlitsins að það hafi bent sjávarútvegsráðuneytinu á akkúrat þessar bakdyr við undirbúning málsins. En ég fæ ekki séð að þær athugasemdir hafi verið teknar til greina að neinu marki.

Af þeim sökum að algerlega óljóst er hvaða afleiðingar nákvæmlega þetta frumvarp mun hafa, hvort það muni hafa áhrif á þau laun sem sjómenn fá og þar með líka það endurgjald sem við fáum af þeirra launum í ríkissjóð, þá vitum við ekki nákvæmlega hvaða afleiðingar þetta mun hafa á ríkissjóð í heild sinni. Vegna þess að frumvarpið var unnið án samráðs og án samstarfs við okkur í þinginu og án þess að okkur hafi verið sýnt fram á að þetta sé rétta leiðin til að tryggja sátt um þessa undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar, leggjum við í minni hlutanum fram frávísunartillögu, þ.e. Flokkur fólksins, Píratar, Viðreisn og Samfylkingin, enda teljum við málið vanreifað og leggjum til að veiðigjöldin verði samþykkt óbreytt eða í þeirri mynd sem gefur okkur færi á að endurskoða í meiri sátt hvernig þetta kerfi okkar á að ganga fyrir sig og tryggja þá og ganga út frá því að útgangspunkturinn á slíkri lagasetningu, verði að komast að samkomulagi um hvert hlutfallið á að vera sem þjóðin á að taka af arði af auðlindinni vegna þess að það er ekki gert í frumvarpinu. Sú tenging að þjóðin eigi sjávarauðlindina eins og aðrar auðlindir í landinu er tekin út úr frumvarpinu. Við höfum það ekki lengur þar inni. Við þurfum að komast að samkomulagi um það hér hvort við viljum, eins og sumir hafa lagt til að sé niðurstaðan af frumvarpinu, að þjóðin fái u.þ.b. 15% af arðsemi atvinnugreinarinnar í sinn hlut af arðinum af auðlindarentunni eða þá að við förum í þá átt sem veiðigjöldin 2012 áttu að skila, sem var að stefna í að þjóðin fengi u.þ.b. 60% af tekjum af arðinum af þessari auðlind sinni.

Þetta viljum við skoða og um þetta þarf að eiga sér stað pólitísk umræða. Því er ekki fyrir að fara í þessu frumvarpi að horft hafi verið til þess að þjóðin eigi óafturkræft og óafturkallanlegt tilkall til auðlindar sinnar og ekki eigi að vera að festa í gildi eitthvert kerfi sem gæti grafið undan þeim augljósa sannleika okkar sem trúum á nýju stjórnarskrána en líka þeirra sem trúa á náttúrulegt réttlæti.

Að lokum, herra forseti, vil ég rétt aðeins minnast á athugasemdir hv. þingmanna í stjórnarmeirihlutanum sem fara hér mikinn um varabreytingartillögur okkar Pírata, Viðreisnar og Samfylkingarinnar. Á milli þess sem þau segjast ekkert skilja — ekki neitt — í þeim tillögum sem að efninu til má finna í þeirra eigin stefnu hrópa þau að við séum að leggja til umbyltingu á fiskveiðistjórnarkerfinu og saka okkur um að við viljum hirða milljarða af öldruðum og öryrkjum og gefa landshlutunum sem halda atvinnugreininni uppi. Hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir sakaði okkur meira að segja um að vilja taka 4 milljarða á ári næstu árin af öryrkjum til afnáms krónu á móti krónu skerðingu. Ég hef reyndar ekki heyrt af þessum áætlunum stjórnarmeirihlutans. Ég hef hvorki heyrt þeim fleygt annars staðar né finn ég því stoð í fjármálaáætlun ríkisstjórnarinnar að nú standi til að bæta 4 milljörðum á ári í málaflokkinn næstu komandi ár. Mér þætti áhugavert líka að fá það staðfest ef svo er vegna þess að þá væru það að sjálfsögðu gleðifréttir.