149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[14:34]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætlaði nú að leyfa mér að lesa orðrétt úr umsögn ríkisskattstjóra, hann sendi okkur tvær umsagnir, en ég valdi vitlausa umsögn þannig að ég get ekki staðið mig svo vel í þessum efnum, ekki alveg strax alla vega. En mig minnir, þar sem ég var að lesa þessa umsögn í dag, að embættið hafi áréttað mjög skýrt að það yrði mjög erfitt að koma í veg fyrir þetta, sérstaklega þegar það bæri ekki mikið á milli aðila. Segjum að ef fimm stærstu útgerðirnar eða 20 stærstu útgerðirnar ákvæðu að taka sig saman og standa í því að færa verðmæti úr veiðum og yfir í vinnslu sameiginlega, þá fyndu þeir engin frávik frá því. Þetta hefur líka verið bent á. Það er alveg augljóst.

Hvað varðar endurteknar spurningar hv. þingmanns um breytingartillögur, varabreytingartillögur, nota bene, þessara flokka, vil ég kannski árétta að við leggjum til að þessu máli verði vísað frá vegna þess að ríkisstjórnin stóð svo illa að því og stóð einmitt ekki að samráði í því.

Þessar 56 sekúndur sem ég á eftir ætla ég að nota í að lesa þessa breytingartillögu okkar vegna þess að það hefur ekki verið gert hingað til svo ég hafi tekið eftir, ég les svo langt sem ég kemst á meðan tími minn varir, svo það sé augljóst að hv. þingmaður hafi heyrt hana. Með leyfi forseta:

„Við 1. gr. Greinin orðist svo:

Veiðigjald er greiðsla fyrir tímabundin afnot af sameiginlegri fiskveiðiauðlind landsmanna. Veiðigjaldið á að tryggja þjóðinni hlutdeild í arðsemi nýtingar á hverjum tíma. Veiðigjald skal standa undir kostnaði við stjórn og eftirlit með fiskveiðum og jafna stöðu byggða vegna breytinga á atvinnuháttum.

2. Á eftir 1. gr. komi ný grein, svohljóðandi:

Aflahlutdeild skv. 2. mgr. 8. gr. laga nr. 116/2006, um stjórn fiskveiða, skal gera tímabundna með þeim hætti sem greinir í 2. mgr.

Frá og með 1. janúar 2019 skal Fiskistofa skipta aflahlutdeild handhafa í hverri og einni tegund í tuttugu jafna tímabundna hluta. Skal fyrsti hlutinn gilda í eitt ár, annar hlutinn í tvö ár og svo koll af kolli. (Forseti hringir.) Frá og með 1. janúar 2020 skal árlega endurúthluta til tuttugu ára þeim 5% aflahlutdeildar í hverri tegund sem þá er laus og ótímabundin.“ (Forseti hringir.)

Það eru tveir málsliðir í viðbót í þessari tillögu. (Forseti hringir.) Ég mæli með því að hv. þingmaður lesi hana.

(Forseti (ÞorS): Forseti mælist til þess að hv. þingmenn virði ræðutíma.)