149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[14:57]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Sigurður Páll Jónsson) (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir prýðisræðu. Í stórum dráttum var ég ósammála honum en í fáeinum dráttum sammála. Þingmaðurinn talaði um grátkór stjórnarmeirihlutans. Ég er sennilega í þeim grátkór og syng þar bassa. Ég er ágætisbassasöngvari. Mínar áhyggjur hafa komið skýrt fram í ræðum og riti og fyrst þingmaðurinn var að tala um að hann sæi öngvar tölulegar staðreyndir þess efnis að útgerðin væri í neinum vanda, í neinum útgerðarflokkum, langar mig að nefna svolítið volgar tölur í því sambandi. Þá er ég að tala um útgerðir sem eru ekki í smæsta flokknum, ekki í krókaaflamarkinu, heldur þar fyrir ofan. Í úttekt frá Deloitte á rekstri sjávarútvegsfélaga á Austurlandi, í Grindavík, í Vestmannaeyjum, á Snæfellsnesi og á Vestfjörðum kemur fram að tekjur hafi dregist saman á bilinu 2–18% og EBITDA um 16–43%. Mestur var samdrátturinn hjá þeim félögum sem stunda bolfiskveiðar. Þetta segir okkur m.a. að sjávarútvegsfyrirtæki sem stunda veiðar og vinnslu í bolfiski hafa lent í miklum samdrætti. Veiðigjöld voru árið 2017 74% af hagnaði sjávarútvegsfyrirtækja á Snæfellsnesi og á Vestfjörðum. Í Grindavík voru þau tæp 83% af hagnaði.

Þetta segir hv. þingmanni kannski að staðan er grafalvarleg, alla vega í þessum útgerðarflokki, (Forseti hringir.) og líka í krókaaflamarksflokknum, bara svo að þingmaðurinn sé upplýstur um það.