149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[15:03]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni síðara andsvar. Þegar kemur að samþjöppun í sjávarútvegi er það viðfangsefni sem við höfum verið að takast á við allt frá því að kvótakerfinu var komið á fót fyrir áratugum. Það er alveg rétt að fyrirtækjum hefur fækkað, þau hafa stækkað og það var beinlínis markmið þess kerfis. Við þurfum kannski að fara að gera það upp við okkur hvort við viljum. Með upptöku kvótakerfisins á sínum tíma tókum við þá ákvörðun að segja: Við ætlum ekki að reka sjávarútveg sem einhvers konar atvinnubótastarfsemi. Við ætlum að reka hann sem myndarlega atvinnugrein. Hún er allt of stór fyrir okkur til þess að ríkissjóður eigi að vera að hlaupa undir bagga með afkomu fyrirtækja þegar illa árar. Greinin verður að geta staðið á eigin fótum. Það var rótin að hugsuninni með kvótakerfið, fyrir utan nauðsynlegar umbætur á fiskveiðistjórninni sjálfri. Við þurfum að taka þá umræðu. Það alveg rétt. Við gætum lagt af veiðigjöld með öllu og það myndi halda áfram samþjöppun í greininni því að það er kvótakerfið en ekki veiðigjöldin sem ræður för og hefur gert alla tíð frá því að kvótakerfinu var komið á fót. Það þýðir ekki að kenna veiðigjöldunum um þá samþjöppun. Sú samþjöppun var við hestaheilsu, ef svo má orða það, löngu áður en veiðigjöldin komu til sögunnar og hefur heldur hægt á henni, ef eitthvað er, ef út í það er farið.

En það er heldur enginn að tala um að hér verði einhver fjögur, fimm sjávarútvegsfyrirtæki þegar upp er staðið. Við setjum töluverðar skorður varðandi hámarksstærð fyrirtækjanna og við höfum séð að það er miklu nær lagi að tala um að þetta séu vissulega orðin 40–50 yfirburðastór fyrirtæki á þennan mælikvarða, en það hafa orðið til mjög öflugir sjávarútvegsklasar á Norðurlandi, á Austurlandi, í kringum Snæfellsnesið, á Suðurnesjunum og í Vestmannaeyjum. (Forseti hringir.) Það hefur ekki verið svo að þetta hafi safnast allt á einn stað. Þvert á móti hafa byggst upp öflugir sjávarútvegsklasar um allt land í þessari þróun.