149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[15:05]
Horfa

Páll Magnússon (S):

Herra forseti. Búið er að eyða eða nota, skulum við segja, talsvert marga klukkutíma í gær og í dag og verður sjálfsagt áframhaldandi til að fjalla um það frumvarp sem liggur fyrir um veiðigjald og breyttar aðferðir við að reikna það út og leggja það á. Langflestir klukkutímarnir hafa hins vegar fjallað um eitthvað allt annað en frumvarpið fjallar um, með öðrum orðum hefur mestum tímanum verið varið í að fjalla um fiskveiðistjórnarkerfið sjálft en ekki þær breytingar á veiðigjaldi sem lagðar eru til.

Mér þótti reyndar nokkuð einkennilegt að heyra hv. þingmann Viðreisnar, Þorstein Víglundsson, standa hér áðan til varnar og sóknar fyrir núgildandi veiðigjaldakerfi. Það væri svo gott eiginlega, skildist mér helst á honum, að þar mætti engu breyta. Ég hélt í einfeldni minni að nokkur samhljómur ríkti um það hér sem og í greininni sjálfri að það veiðigjaldakerfi sem við erum vonandi að kveðja með þessu nýja frumvarpi væri meingallað fyrir margra hluta sakir, ekki aðallega vegna þess sem hv. þm. Þorsteinn Víglundsson talaði um áðan, að það væri verið að bregðast endilega við afkomu í greininni með því heldur væri einfaldlega verið að færa það til miklu betri vegar en það er í dag. Hv. þingmaður sá lítil vandkvæði í því fólgin að verið væri er að byggja á tveggja til þriggja ára gömlum afkomutölum við álagningu gjaldanna. Það væri með öðrum orðum enginn sérstakur galli í því fólginn að fram á árið 2017, ef við tökum fiskveiðiárið til 2018, sem er versta ár í sögu sjávarútvegs á Íslandi í áratug, að vera að greiða veiðigjald sem miðaðist við afkomuna á árinu 2014 sem var besta ár í íslenskum sjávarútvegi í áratug. Þetta þótti hv. þingmanni enginn sérstakur galli. Mér er eiginlega fyrirmunað að skilja þennan málflutning sem felst í því að það sé bara um tvennt að ræða í þessari stöðu. Fyrst myndast hér dálítið sérkennilegt bandalag Samfylkingarinnar, Pírata, Viðreisnar og Flokks fólksins um að vísa málinu frá. Með öðrum orðum má ekki laga ágallana á núgildandi veiðigjaldakerfi án þess að vera að fjalla um eitthvað allt annað í leiðinni eins og fiskveiðistjórnarkerfið sem ég kem að á eftir.

Svo verður bandalagið þetta. Mér finnst þetta furðulegt bandalag um núgildandi kerfi um óbreytt ástand sem ekki má laga neitt þó að ágallarnir séu himinhrópandi og gargi framan í mann eins og í alla greinina. Alveg sama hvar borið er niður í greininni eru menn sammála um þá ágalla sem hv. þm. Þorsteinn Víglundsson gerði ekki mikið með og fannst bara ágætt og ástæða til að standa sérstakan vörð um kerfið. Svo brotnaði aðeins úr bandalaginu þegar kom að varatillögunni um fyrningar- og uppboðsleiðina. Flokkur fólksins datt þá úr skaftinu, ég segi það honum til hróss. Er þetta þá þannig að ekki sé um neitt annað að ræða en að standa vörð og til varnar fyrir óbreytt veiðigjaldakerfi með öllum þess ágöllum sem allir eru sammála um, nema þá núna Viðreisn síðast, eða er verið að kollvarpa fiskveiðistjórnarkerfinu sjálfu? Það má með öðrum orðum ekki laga neitt í veiðigjaldakerfi, það verður að standa óbreytt eða við verðum að kollvarpa fiskveiðistjórnarkerfinu.

Þá skal ég víkja aðeins að því sem andstæðingar frumvarpsins í þessum sal hafa viljað tala frekar um en felst í frumvarpinu sjálfu sem er fiskveiðistjórnarkerfið. Hvaða kröfur eru það sem við þurfum að gera til fiskveiðistjórnarkerfisins á Íslandi? Þær eru fyrst og fremst þrenns konar að mínu mati og það sýnir okkur reynslan frá fyrri tíð og fram á þessa tíð. Í fyrsta lagi er mikilvægasta krafan að nýtingin á sjávarauðlindinni sé sjálfbær, að við nýtum fiskveiðiauðlindina með eins skynsamlegum hætti með tilliti til sjálfbærni tegundanna og mögulegt er, að við notum til þess bestu fáanlegu þekkingu og ráð bestu hugsanlegu sérfræðinga. Það gerum við í dag, það færir núverandi fiskveiðistjórnarkerfi okkur og kemur þá kreditmegin í því kerfi. Ég held að að bestu manna yfirsýn og eftir því sem okkar þekking nær til séum við að nýta sjávarauðlindina með besta mögulega hætti með tilliti til sjálfbærni. Þá er fyrsta krafan uppfyllt.

Í öðru lagi gerum við þá kröfu til kerfisins að sjávarútvegurinn sem atvinnugrein sé rekinn með bestu og mestu mögulegu arðsemi og skili sem allra bestum afrakstri til samfélagsins í heild. Ég tel að reynslan sýni að við séum líka að gera það. Ég held að þær þjóðir sem á annað borð stunda sjávarútveg í kringum okkur og víðs vegar um heiminn horfi til okkar öfundaraugum um arðsemina og framlegðina í okkar sjávarútvegi. Þannig hefur hún verið og hjálpað okkur í gegnum mikla öldudali og miklar sveiflur sem aðrir atvinnuvegir hafa gjarnan tekið. Hún hefur staðið það styrk af sér, öfugt við það sem áður var. Þannig að innleiðingin á núverandi fiskveiðistjórnarkerfi hvað þetta varðar, þ.e. að bæta arðsemi og framlegð í atvinnugreininni sjálfri, hefur uppfyllt allar þær væntingar sem við gerðum til þess að því leyti til.

Þá komum við að þriðja atriðinu þar sem segja má, og umræðan hér í dag sýnir okkur kannski best, að okkur hafi mistekist að ná sátt um þetta kerfi sem er eiginlega greininni nauðsynlegt. Sama hvað við höfum mæðst í hvað það varðar hefur þetta ekki tekist.

Það eru nokkur atriði sem hafa valdið óróleikanum í kringum þessa atvinnugrein og fiskveiðistjórnarkerfið sem og áhyggjum og óróa og við höfum ekki höndlað alveg nógu vel. Í fyrsta lagi er það samþjöppunin í greininni með þessari auknu arðsemi og kannski sem forsenda fyrir því, kannski var samþjöppunin í greininni ákveðin forsenda fyrir þeim mikla árangri sem við höfum náð á því sviði rekstrarlega upp að ákveðnu marki, en hún er pólitískt og samfélagslega viðkvæm. Við höfum sett samþjöppuninni ákveðnar skorður um hvað hvert fyrirtæki megi eiga í heildaraflahlutdeild og þar fram eftir götunum en segja má að þetta hafi ekki virkað til fullnustu vegna þess að eins og með öll kerfi eru til leiðir að sumu leyti fram hjá því með dótturfyrirtæki, hlutdeildarfyrirtæki og annað sem menn hafa gert, þannig að þetta hefur ekki alveg skilað nægu, a.m.k. hefur þetta ekki dugað til að mynda sátt um málið hvað þetta varðar. En þarna verður eiginlega ekki bæði sleppt og haldið vegna þess að við vitum að samþjöppunin er að sumu leyti grundvöllurinn fyrir þessari auknu framlegð og þessari auknu arðsemi sem hefur verið í greininni.

Svo komum við að landfræðilegri samþjöppun sem líka hefur verið deilt um. Við höfum horft upp á byggðarlög missa svo gott sem allan sinn kvóta í burtu. Önnur hafa grætt tímabundið en alltaf er sú hætta fyrir hendi að þetta komi og fari nokkurn veginn fyrirstöðulaust. Við reyndum að grípa til aðgerða til að sporna á móti þessu, sem margir kölluðu að hengja akkeri á veiðiheimildirnar í byggðarlögunum. Aðrir kölluðu það að hella sírópi í þetta kerfi þannig að það gerðist a.m.k. ekki sjálfkrafa og fyrirstöðulaust að veiðiheimildir, aflaheimildir, flytu út úr byggðarlögunum, úr einu byggðarlagi í annað. Við bjuggum til forkaupsréttarkerfi eða -ákvæði inn í þessi lög. Hæstaréttardómur féll um það fyrir þremur árum, eitthvað svoleiðis, sem sýndi fram á að þessi forkaupsréttur hélt ekki. Það voru þá félögin sjálf og hlutabréfin sem gengu kaupum og sölum, ekki aflaheimildirnar, og menn fundu leiðir fram hjá þessu þannig að sírópið eða akkerið var einskis virði.

Við þurfum að taka afstöðu til þessa hér í þinginu. Eigum við að gera forkaupsréttarákvæðið virkt þannig að það virki afdráttarlaust eða hengja annars konar akkeri eða hella sírópi í þetta system þannig að þetta renni ekki viðstöðulaust út úr byggðarlögunum? Það kann að vera. Mér finnst það hreint ekki útilokað. Rúllugjaldið fyrir það er að þetta er þó alltaf inngrip inn í ferðalagið til mestrar arðsemi. Það er alveg þess virði að íhuga hvort við eigum að gera þetta. Sömuleiðis eigum við að grípa til einhverra strangari aðgerða gagnvart lóðréttri samþjöppun á milli fyrirtækja sem auðvitað er á fullri ferð.

Þetta eru mjög mikilvæg atriði en eru strangt til tekið ekki til umræðu í sambandi við umfjöllun um þetta tiltekna frumvarp sem hér er.

Þá komum við að þriðja og síðasta atriðinu, eins og ég lít á þetta, í þeim þættinum sem snýr að sáttinni, þ.e. þriðja fætinum undir fiskveiðistjórnarkerfi okkar. Fyrstu tvær kröfurnar voru uppfylltar að mínu mati. Hv. þm. Þorsteinn Víglundsson talaði um það áðan að það væri til vansa fyrir okkur eða í samfélaginu að við hefðum ekki komið okkur upp samræmdu kerfi til að heimta afgjald af notkun á auðlindunum okkar. Ég tek alveg undir það með honum, en í ræðunni fannst mér eins og þess gætti að hann gleymdi því þó að eina afgjaldið sem greitt er fyrir afnot af auðlind á Íslandi er að finna í sjávarútvegi og það er veiðigjaldið sem verið er að greiða. Er það of hátt? Er það of lágt? Eigum við að reikna það öðruvísi en við erum að gera í dag? Menn geta haft allar skoðanir á því.

Ég hlustaði á umræður í 2. umr. um fjárlögin um daginn að nánast allir þeir sem voru að tala um það, ekki síst t.d. fulltrúar þeirra flokka Viðreisnar og Samfylkingarinnar og þeirra sem eru á tillögunni, að það sem væri vanlagt í velferðarkerfið, félagslega kerfið okkar, heilbrigðiskerfið, menntamálin og allt saman — ég vil segja hv. þm. Þorsteini Víglundssyni það til varnar að ég á kannski frekar við Samfylkinguna þegar ég er að tala um þetta — að svarið var alltaf í gegnum alla 2. umr. fjárlaga að þetta væri allt hægt að gera með því að heimta hærra gjald af sjávarútveginum. Það átti eiginlega bara að sækja alla peninga sem allir þurfa á Íslandi inn í heilbrigðiskerfi, velferðarkerfi, menntakerfi — við vitum alveg hvar við eigum að taka peningana. Sjávarútvegurinn getur bara borgað þetta. Á að innheimta fyrir þessu öllu saman með veiðigjöldum eða einhvers konar afgjaldi fyrir afnot af auðlindinni? Ég veit ekki hvað var búið að nota EBITDA í sjávarútvegi oft í 2. umr. fjárlaga til að borga fyrir alla skapaða hluti.

Frumvarpið er hins vegar ekki um fiskveiðistjórnarkerfið. Frumvarpið er um aðferð við að innheimta veiðigjald samkvæmt því kerfi sem við búum við í dag. Þetta frumvarp felur í sér svar við margháttaðri gagnrýni sem kemur úr atvinnugreininni sjálfri og augljósri rökstuddri gagnrýni á ómöguleika og slæmu hliðarnar á því kerfi sem við búum við í dag. Mér er fyrirmunað að skilja af hverju ekki má laga veiðigjaldakerfið að mati þeirra flokka sem standa að þessum tillögum tveimur. Af hverju í ósköpunum verður að vísa þessari tillögu frá, og helst að vísa henni frá, það er fyrsti kostur og annar kostur að kollvarpa fiskveiðistjórnarkerfinu sjálfu? Miðað við það sem frumvarpið stendur fyrir finnst mér sú afstaða hrein rökleysa.