149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[15:25]
Horfa

Páll Magnússon (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég ber nú í sjálfu sér engan sérstakan ótta í brjósti við að veiðiheimildir séu í eðli sínu tímabundnar, svo fremi sem það sé þá til það langs tíma að tímabindingin hafi ekki áhrif á fjárfestingu í greininni, að menn hætti ekki við að endurnýja skip, frystihús, fiskvinnslulínur, vegna þess að tíminn til að afskrifa þær verði of skammur eða að það sé eiginlega ekki á vetur setjandi að fjárfesta út frá þeirri tímamörkun eða tímabindingu.

Ég átta mig hins vegar ekki á, og ég verð eiginlega að biðja hv. þingmann að nota kannski brot af þeim tíma sem hann hefur í seinna andsvarinu til að skýra það, þar sem ég hef örugglega jafn gaman af að spyrja hann um málið eins og hann mig: Hver er þá ávinningurinn af tímabindingunni ef við gerðum hana til 20 ára? Hver er ávinningurinn af henni miðað við það kerfi sem við höfum í dag? Það er nefnilega ekki þannig að við séum að stríða eitthvað við það hver eigi þessa auðlind. Í 1. gr. laganna um stjórn fiskveiða eru tekin af öll tvímæli um að auðlindin sjálf sé í eigu þjóðarinnar.

Þá langar mig að spyrja, fyrst hv. þingmaður hefur gert talsvert mikið úr þessari tímabindingu: Hver er ávinningurinn af því að tímabinda veiðiheimildirnar, til 20 ára t.d. eins og hann nefndi, miðað við það sem við höfum í dag?