149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[15:27]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég túlka svar hv. þingmanns þannig að í það minnsta sé engin ástæða til að óttast að við séum að kollvarpa kerfinu með þessu fyrirkomulagi. En hann spyr hver væri ávinningurinn. Það er auðvitað það sem ég og fjölmargir aðrir þingmenn í þessum sal óttumst, að með því að tímabinda ekki þessar veiðiheimildir, horft til framtíðar — og það er einmitt í takt við það sem rætt hefur verið um í fjölmörgum álitum, bæði auðlindahagfræðinga og fjölmargra nefnda sem um þetta mál hafa verið skipaðar — þá skapist einhvers konar varanlegt eignarfyrirkomulag fyrirtækjanna á auðlindinni sjálfri, ekki bara veiðiheimildunum sem þær halda á. Það er auðvitað það sem við viljum forðast í þessu. Við viljum tryggja annars vegar að það sé enginn vafi á forræði og eignarhaldi þjóðarinnar á auðlindinni sem slíkri og við séum einungis að höndla með tímabundnar veiðiheimildir fyrirtækjanna.

Svo er ekkert launungarmál að þetta fyrirkomulag gæti síðan lagt grunn að skynsamlegu uppboðskerfi á veiðiheimildum í framtíðinni (Forseti hringir.) þar sem búið væri að skapa fordæmi og festa í sessi tímabundnar veiðiheimildir sem væri hægt að eiga viðskipti með.