149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[15:35]
Horfa

Páll Magnússon (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Jú, þetta er talsvert umhugsunarefni. Þessi staða á sér að vísu margþætta skýringu, þessi hækkun veiðigjalda í Grindavík. Það er m.a. vegna þess að í bolfisksútgerðinni þar nutu fyrirtæki skuldatengds afsláttar af veiðigjöldum, eins og sums staðar annars staðar. Ofan á aðrar hremmingar í sjávarútveginum bættist það að þessi afsláttur var afnuminn. Það kom af ýmsum ástæðum verr niður á útgerðum í Grindavík en víða annars staðar á landinu. Það er a.m.k. hluti af skýringunni á því af hverju þessi mjög neikvæða breyting verður á afkomunni í Grindavík og hlut veiðigjaldanna þar — ofan á annað var afslátturinn afnuminn.