149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[15:37]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég skil hana þó þannig að það sé mjög langt í að við verðum sammála um þetta málefni. Það er hins vegar mikilvægt fyrir umræðuna og málið sjálft að við rökræðum og fáum skýringar á hlutunum. Ég vil spyrja hv. þingmann út í breytingar á markmiðsgrein frumvarpsins. Mér finnst eins og hv. þingmenn sem hafa talað hér úr stjórnarmeirihlutanum vilji halda því fram að hér sé ekki mikil breyting. Það sé hvorki hækkun né lækkun og eitthvað svona. Svo þegar maður fer að rýna í hlutina er nú meiri breyting en menn vilja vera láta.

Ein breyting er breyting á markmiðsgreininni sem ég átta mig ekki alveg á hvers vegna er. Í núgildandi frumvarpi er talað um að veiðigjöldin séu til að tryggja þjóðinni í heild hlutdeild í þeim arði sem nýting sjávarauðlindarinnar skapar. Ég held að við getum öll verið sammála um þetta. En samt sem áður er í þessu frumvarpi breytingartillaga þar sem segir að veiðigjaldið sé til þess, með leyfi forseta, „að tryggja þjóðinni í heild beina og sýnilega hlutdeild í afkomu við veiðar í nytjastofnum sjávar“.

Þarna er búið að taka „arð“ út og talað um „hlutdeild í afkomu“ í staðinn. Ég vil biðja hv. þingmann um að útskýra þetta fyrir mér. Af hverju þótti ástæða til að breyta þessari markmiðsgrein? Það er einfalda spurningin. Af hverju er þessu breytt?