149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[15:40]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er bara hissa á þessu vegna þess að síðan ganga allar forsendur út á að reyna að finna út hver arðurinn sé, hver auðlindarentan sé. Og síðan er farið að tala um hlutfall af henni sem þjóðin eigi að fá. Þess vegna er ég hissa á þeim orðalagsbreytingum, líka vegna þess að það er ekki beinlínis sýnilegt eða mjög skýrt hvernig þetta allt saman er gert. Til að mynda þetta hlutfall, 33% af auðlindarentunni sem á að renna til þjóðarinnar, hvernig það er fundið út. Undir eru árin 2009–2018 og fyrstu árin var bara hreinlega ósköp lítið veiðigjald innheimt og það dugði varla fyrir kostnaði. Síðan kemur eitt ár, árið 2012, þar sem sérstakt auðlindagjald er innheimt. En þau lög náðu aldrei alveg fram að ganga því að samkvæmt þeim átti hærra hlutfall auðlindarentu (Forseti hringir.) að ganga til þjóðarinnar. Síðan koma Framsókn og Sjálfstæðismenn og lækka þetta aftur.(Forseti hringir.)

Ég vil biðja hv. þingmann um að útskýra(Forseti hringir.) fyrir mér hvers vegna það sé réttlætanlegt að grípa þessa tölu, 33%. (Forseti hringir.) Og af hverju eru ár undir þar sem var ekki einu sinni verið að innheimta almennilegt veiðigjald?

(Forseti (ÞorS): Forseti beinir því til hv. þingmanna að virða tímamörk.)