149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[16:03]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Þorsteini Víglundssyni andsvarið.

Hv. þingmönnum Viðreisnar hefur verið tíðrætt um þrjá Framsóknarflokka. Ég verð að segja eins og er að mér finnst þetta vera voðalega „lásí“, svona málflutningur. Ég er einhvern veginn ekki í sérstöku stuði að vera að gera grín að kollegum mínum í þinginu. Við vorum með ykkur í ríkisstjórn í eitt ár. Mér fannst það bara ganga mjög vel. Þá fannst mér þið vera nokkuð sælir með að koma ykkar stefnumálum ekki öllum á framfæri. Þannig er það með okkur. Við erum einn flokkur af þremur með mismunandi skoðanir á málum. Við Sjálfstæðismenn erum alveg óþreyttir við að halda skoðunum okkar á lofti. En við erum líka alveg einarðir í því að standa saman um stefnumál ríkisstjórnarinnar, sem er þá samkomulag okkar þriggja flokka. Það er eðlilegt í því ríkisstjórnarsamstarfi sem nú er. Þannig þurfum við auðvitað að vinna. Við þurfum að vera eins og landsliðið í fótbolta að spila leikkerfi. Það eru auðvitað ekki allir sammála því hvort spila eigi vörn eða sókn. En við spilum okkar kerfi.

Ég segi við hv. þingmann: Mikilvægast fyrir sjávarútveginn er fyrirsjáanleiki. Mikilvægast fyrir hann er að geta gengið að því vísu hvaða kvóta hann hefur til næstu ára. Það er grundvöllur uppbyggingarinnar. Það er grundvöllur nýsköpunar sem við erum að tala um að standi á bak við sjávarútveginn. Farðu bara í frystihúsin í Grindavík, þau eru tilraunastofur fyrir nýsköpunina í landinu sem eru að flytja út afurðirnar fyrir milljarða kr. og til samkeppnislandanna líka.