149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[16:21]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegur forseti. Við ræðum frumvarp um breytta innheimtu á veiðigjöldum. Ég fagna því að þetta frumvarp sé komið fram og að við séum að nálgast einhverja raunhæfa lausn í að innheimta álögur á eina atvinnugrein umfram aðrar og að þetta sé þá eitthvað sem sveiflast í einhverjum takti við afkomuna og nær í tíma, sem ég held að hafi alltaf verið markmið allra fyrst við ákváðum á annað borð að fara í gjaldtöku. Ég fagna því að komin sé einhver leið sem er þá gagnsærri og byggi á betri upplýsingum sem hægt er að reiða sig betur á varðandi stöðugleikann sem allar atvinnugreinar þurfa að búa við.

Ég get samt ekki neitað því, eins og margt gott er í frumvarpinu og við að fara jákvæð af stað að reyna að ná að búa til einhvers konar raunhæft kerfi um þetta þar sem byggt er á betri og öruggari gögnum og fyrirsjáanleikinn meiri, að gjaldið er samt enn of hátt. Af hverju segi ég að gjaldið sé of hátt? Það sýna niðurstöður frá um 600 útgerðarfélögunum sem greiða veiðileyfagjald. Við höfum séð það frá því að veiðileyfagjöldin hækkuðu svona mikið og fóru í þær upphæðir sem þau eru í núna, hvað samdrátturinn hefur verið gríðarlegur. Það hefur verið erfitt fyrir útgerðir í hinum ýmsu útgerðarformum og af misjöfnum stærðum að reka sig í gegnum þetta. Sem hefur orðið til þess að þeir sem eru stærstir og hafa verið með betri rekstrargrundvöll eða betri aðstæður og annað slíkt og þannig samsetningu á sínum aflahlutdeildum, hafa þá getað keypt þessar aflaheimildir og aukið hagræðingu sína enn frekar og brugðist við þeim samdrætti sem hefur orðið í gegnum árin.

Við verðum að hafa í huga þegar við ræðum veiðigjöld fyrir aðgang að auðlindinni að þau eigi að vera hófleg og sanngjörn, sem er þá kannski eina þrætueplið sem verður eftir, að ég tel, eftir að þessi gjöld komu fram, hvað sé hóflegt og sanngjarnt. Þær útgerðir sem starfa í dag hafa að mestu, allt að 95%, keypt sínar aflaheimildir. Þær hafa verið að spila á þeim markaðslegu forsendum að kaupa aflaheimildir og þannig hafa þær greitt fyrir aðgang sinn að nýtingarrétti, þó að það sé alveg óumdeilt hver eigi þetta. Oft snýst umræðan nefnilega um það hver hafi nýtingarréttinn. Þeir sem hafa nýtingarréttinn í dag hafa keypt hann, það er bara þannig. Það þýðir ekki fyrir okkur að vera að rífast um það að einhverjir hafi fengið úthlutað kvóta því að þeir eru farnir út. Þeir sem fengu úthlutað, ýmist er búið að skerða af þeim eða þeir hafa þurft að kaupa hann til baka af því að aflaheimildir hafa dregist saman. Þess vegna hafa þeir þurft að kaupa heimildir sínar út af skerðingunum. Og út af þessum álögum hafa margir ákveðið að fara út úr greininni í staðinn fyrir að láta ríkið hirða ævistarfið af sér. Það er bara þannig.

Ég hef miklar áhyggjur af því að ef gjaldið verður áfram of hátt verði byggðaþróun, þar sem 90% af aflaheimildunum eru úti á landi — þar hefur verið gríðarleg þróun þar sem fyrirtækin hafa verið að fjárfesta í tækniframförum og nýsköpun. Ég held að nýsköpun sé hvergi meiri í atvinnulífinu á Íslandi en í sjávarútveginum. Hverjir njóta mestra ávaxta af þeirri nýsköpun? Það er ekki síst á höfuðborgarsvæðinu þar sem tækniþekkingin og tækniklasarnir eru að byggjast upp í sjávarútvegsklasanum, Marel, 3X Stál og Alka, og þetta er á suðvesturhorninu. Frost, Kæling, hægt er að telja slík fyrirtæki endalaust upp. Svo eru fyrirtækin sem eru að byggjast hringinn í kringum landið, Haustak, Codland, Kerecis, Genis, Protis og lengi mætti telja. Þetta eru hátæknifyrirtæki sem eru að fjölga menntuðu fólki í afleiddum störfum frá sjávarútvegi. En út af of háum álögum munu fyrirtækin sem eru stödd hringinn í kringum landið ekki hafa burði til að versla við þessi nýsköpunarfyrirtæki eða standa í þessari tækniþróun, í nýsköpun og uppbyggingu, í fullvinnslu á aflanum og öðru slíku, heldur er annað að gerast. Tölurnar sýna okkur að óunninn fiskur er alltaf fluttur út í meiri og meiri mæli. Meðan önnur lönd, eins og Noregur, eru að draga saman útflutning á óunnum fiski breytumst við úr því að flytja út fullunna vöru, verðmætari vöru, frá Íslandi yfir í að vera hráefnisútflutningsþjóð.

Það er ekki gott fyrir neinn þannig að við verðum að vita hvað það þýðir að hafa þessar álögur. Þetta snýst ekkert um grey útgerðarmennina eða stórkóngana, það snýst bara minnst um þá. Það þýðir ekki að láta alla umræðuna snúast um þessi þrjú, fjögur stórfyrirtæki sem standa hvað skást þegar við erum með 600 önnur sem standa ekkert allt of vel. Við þurfum að ræða þetta í heildina. Þetta snýst um byggðirnar, landsbyggðina og fólkið sem vinnur við þetta, fólkið í nýsköpuninni, unga fólkið sem er að koma úr skólunum og tekur þátt í uppbyggingunni og nýtur góðs af því ef atvinnugreinarnar hafa burði til þess að taka þátt í nýsköpun og þróun. Þetta snýst um fólkið sem vinnur hjá þeim fyrirtækjum, er búið að fjárfesta í sínum eignum, hefur sitt lífsviðurværi af að vinna hjá fyrirtækjunum og í afleiddum störfum. Þetta snýst líka um allan þjónustugeirann, alla vélsmiðina, alla rafvirkjana, smiðina og allt, alla sem eru að vinna fyrir þessi félög úti um allt.

Það er nefnilega þjónustugeirinn sem á engar aflaheimildir. Þeir sem eru í þjónustugeiranum fundu ekki mikið fyrir efnahagshruninu 2008 og 2009, þeir bara fundu varla fyrir því af því að sjávarútvegurinn gat haldið áfram þá. Þá gat sjávarútvegurinn haldið áfram og bjargað því sem bjargað yrði. En hvað gerðist svo í sjómannaverkfallinu? Þá áttu þjónustufyrirtækin í miklum vandræðum þegar sjávarútvegurinn var stopp. Þá voru þau í miklum vandræðum. Við erum því ekkert að tala hér um þær mörg hundruð fjölskyldur sem eiga í sjávarútvegsfyrirtækjunum hringinn í kringum landið. Við erum að tala um þjónustufyrirtækin og íbúana. Við erum að tala um heilu samfélögin og svo nýsköpun og þróunina. Þetta verðum við að vita þegar við erum að fjalla um þetta. Allt tal um einhverja þjóðfélagsumræðu og hvað kemur fram í henni og einhverja kvótagreifa er bara ekki á neinum rökum reist eða neinum staðreyndum. Það er bara þannig.

Nú skulum við ekki samsama okkur allri útgerðinni þó að eitt eða tvö útgerðarfélög hafi burði til að borga arð og það er þá kannski í annarri starfsemi, jafnvel erlendri starfsemi. Það er bara verið að slá ryki í augu fólks með því að tala svona. Við skulum heldur ekki gleyma því hvernig þetta var fyrir um 35 árum, allt í sjóðakerfinu og strögl í útgerðinni. Hvert er þetta búið að þróast? Hvert hefur sjávarútvegurinn þróast? Af hverju stöndum við hér og tökum þátt í umræðu um hvernig á að innheimta gjald af útgerðinni? Þetta er eini sjávarútvegurinn í heiminum sem er sjálfbær og ríkissjóður í þeirri stöðu að innheimta aukagjald.

Ætlum við að fara að setja þetta í einhverja hættu? Er einhver vilji til þess? Við erum búin að þróa kerfi sem virkar sem við eigum að vera stolt af og hlúa að til að hlúa áfram að byggðunum, uppbyggingunni, þróun og nýsköpun.

Það var aðallega þetta sem ég vildi koma á framfæri. Hægt er að tala lengi um sjávarútveginn og fara inn á marga þætti í þessu. Mín skilaboð eru aðallega þau að ég fagna því að við séum að fara heilbrigðari leið í innheimtunni og vildi leggja áherslu á hvað það getur þýtt að hafa gjaldið enn of hátt fyrir hina fjölbreyttu hópa landsins og fyrir almenning.

Ég hvet hv. atvinnuveganefnd til að íhuga hvort það væri rétt að samhliða samþykkt frumvarpsins yrði fylgst með hvaða áhrif þetta hefði á einstaka útgerðarform, fylgst með hvort það hafi strax áhrif til fækkunar eða samdráttar eða það hægi á þróuninni. Þess má líka geta að engin atvinnugrein hefur þróast jafn hratt í umhverfisvernd og sjávarútvegurinn og náð gríðarlegum árangri þar. Til þess að hann geti haldið þeirri þróun áfram og náð verulegum árangri í umhverfismálunum þarf hann að geta fjárfest, hann verður að geta fjárfest og þá er mikilvægt að ríkið sé ekki búið að taka alla þá fjármuni til sín og úthluta til misgáfulegra verkefna.