149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[16:35]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð nú að viðurkenna að ég áttaði mig ekki alveg á fullyrðingum hv. þm. Þorsteins Víglundssonar eða hvað hann var að meina. Ég hélt einmitt að það þyrfti ekki að koma neinum á óvart þegar hægri menn tala um að álögur á eina grein umfram aðrar hafi áhrif á greinina. Ég veit ekki betur en að ég og hv. þingmaður höfum verið sammála um að lægri skattar geti aukið svigrúm og drifkraft og hvata í samfélögum. Það er nákvæmlega það sem við erum að tala um hér.

Ég veit ekki hvað ég vildi ráðskast með sjávarútveginn. Ég var einmitt að tala um að hér værum við að draga úr inngripum ríkisins svo að sjávarútvegurinn geti áfram þróast, íslensku samfélagi til hagsbóta, að við stuðluðum ekki með inngripum og of háum gjöldum að því að sjávarútvegurinn þjappaði sér saman og fólk færi úr honum heldur leyfðum fólkinu sjálfu að þróa það og vera í verðmætasköpun.

Það er einmitt draumur okkar Sjálfstæðismanna, eins og þeirra sem standa í rekstri í sjávarútvegi, að við þurfum ekki að ræða þetta svona mikið. Við viljum bara hafa þetta kerfi sem hefur virkað fínt. Það eina sem við förum fram á og viljum gera er að álögurnar séu ekki of háar. Við eigum að fagna því að hér sé aðeins gagnsærra og skýrara kerfi. Svo vonumst við til þess að óvissan minnki, að þeir geti bara starfað í því markaðsumhverfi sem þeir starfa í í dag og haldið áfram að þróa sjávarútveginn, allri íslenskri þjóð til hagsbóta.

Vonandi þurfum við ekki að fara að ræða sjávarútveginn hér, hvernig við eigum að styðja hann og hjálpa honum, eins og við höfum þurft að ræða með landbúnaðinn.