149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[16:37]
Horfa

Þorsteinn Víglundsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Hvað það síðastnefnda varðar er ég alveg sammála hv. þingmanni. Það er alveg rétt að gott, hagstætt, einfalt, gagnsætt skattkerfi, sanngjarnt skattkerfi, er grundvöllur að góðu og öflugu atvinnulífi. Við eigum að forðast sem mest einhverjar sértækar lausnir í einstökum atvinnugreinum. Hér erum við einfaldlega að tala um að við séum með heildstætt, gott, skýrt og einfalt skattkerfi fyrir atvinnulífið í heild og svo eins einfalt og gagnsætt kerfi til auðlindaverðlagningar og við mögulega getum.

Þetta kerfi sem hér er boðið upp á er það ekki. Þetta er skítamix. Þetta er skítamix þar sem menn setjast yfir einhverjar heimatilbúnar uppgjörsaðgerðir til þess að ná utan um afkomu atvinnugreinar sem nær þá í besta falli bara utan um afkomu hennar að hluta, þegar einfaldast væri að nota markaðskerfið, að leyfa greininni að bjóða í þetta sjálf.

Þess vegna segi ég: Þegar kemur að þessum málum er Sjálfstæðisflokkurinn ekkert annað en sósíalistaflokkur. En auðvitað væri áhugavert ef Sjálfstæðisflokkurinn væri ekki með svona mikla félagsfælni þegar kemur að umræðunni um veiðigjöld, auðlindagjöld, væri tilbúinn ræða þessi mál opinskátt með öðrum flokkum en keyrði ekki bara á sinni eigin leið. Þá gætum við kannski loksins náð samstöðu um einhverja þverpólitíska lausn í þessu máli sem tryggði að við þyrftum ekki að standa hér ár eftir ár að ræða þetta sama, ja, ég segi drepleiðinlega umræðuefni. Það er eitthvað sem við þurfum að ná utan um.

Staðreyndin er hins vegar sú að hér ræður félagsfælni Sjálfstæðisflokksins. Það er alveg sama að hvaða þverpólitísku niðurstöðu hefur verið komist að á undanförnum árum, það er alltaf Sjálfstæðisflokkurinn sem situr einn eftir á móti rest. En hann fær sínu fram. Fylgið er reyndar heldur að dala, kannski kemur að þeim tímapunkti að það verður nógu lítið til þess að flokkurinn geti ekki lengur farið sínu fram í þessu. En það væri ráð, hv. þingmaður, (Forseti hringir.) að við myndum setjast yfir þetta þverpólitískt til að reyna að ná einhverri niðurstöðu sem lifir lengur en eitt ár eða tvö.