149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[16:45]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vona að það heyri ekki til mikilla tíðinda að ég sé í þingsal því að ég er alloft í þingsal og var hér síðast í gær. Ég veit að hér eru nokkrir hv. þingmenn stjórnarandstöðu á mælendaskrá og það kann vel að vera að ég fari í andsvör við þá, ekki síst ef þeir vilja beina til mín spurningum.

Þar sem mér finnst allmikið gert úr veru minni í þingsal vil ég ítreka að ég er hér oft og hef ávallt yndi af því að eiga samtöl þannig að ég sé ekki ástæðu til að gera neitt meira drama úr því. Ég er búin að vera hér síðan kl. 16 og verð hér til kl. 18. Ég er viss um að þingmenn meiri hlutans eru reiðubúnir að færa sig til á mælendaskrá ef þess er óskað. Það er örugglega auðsótt.