149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[16:48]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mig langar bara að leggja orð í belg af því að við erum farin að tala um hvar við vorum þegar við heyrðum þessar fréttir í gær. Ég sat í hótelherbergi í Búdapest og var að hlusta með mjög góðri tækni, svokölluðum AirPods, á fundarstjórn forseta. Svona langt getur maður verið leiddur í þessu öllu. Ég skildi þetta svona.

En ég kem fyrst og fremst hingað upp til að segja nokkuð sem ég er ekki viss um að ég hafi sagt áður og efast um að ég eigi eftir að segja aftur: Ég legg allt traust mitt hér varðandi þetta dagskrárvald á forseta þingsins, hv. þm. Brynjar Níelsson, og trúi því að hann leysi úr þessu máli svo sem best verður á kosið fyrir okkur öll þannig að við getum haldið þessu áfram, hvort sem það eru stjórnarþingmenn sem halda áfram að blokkera stjórnarandstöðuþingmenn eða stjórnarandstöðuþingmenn sem halda áfram að skemma stuðið með umræðu um fundarstjórn. Ég held bara að forseti eigi eftir að leysa vel úr þessu.