149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[16:50]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M):

Herra forseti. Eins og við þekkjum er hugmyndafræðin á bak við veiðigjöldin með tvennum hætti, annars vegar kostnaðargjöld, gjöld til að mæta þeim kostnaði sem ríkið verður fyrir vegna útvegsins, kostnaði vegna rannsókna og eftirlits, og hins vegar greiðsla fyrir aðgang að sameiginlegri auðlind þjóðarinnar.

Í tengslum við þessa umræðu er rétt að koma því á framfæri að Miðflokkurinn telur ekki eðlilegt að auðlindagjald sé aðeins lagt á eina atvinnugrein. Mikilvægt er að mótuð verði heildstæðari stefna hvað auðlindagjöld varðar, enda hefur nýting auðlinda áhrif á umhverfið og brýnt er að tryggt verði að auðlindir séu nýttar á skynsamlegan og arðbæran hátt. Miðflokkurinn hefur lagt fram þingsályktunartillögu þess efnis að fjármála- og efnahagsráðherra verði falið að skipa starfshóp sem skili tillögum um hvort innheimta eigi afnotagjald fyrir nýtingu auðlinda og þá hvaða auðlinda. Starfshópurinn á að leggja fram tillögur um aðferð við álagningu auðlindagjalds sem gæti gengið fyrir allar auðlindir og gera síðan grein fyrir kostum og göllum mismunandi aðferða. Auk þess á hópurinn að taka saman upplýsingar um hvernig gjaldtöku af auðlindanýtingu er háttað í nágrannaríkjum. Við leggjum til að starfshópurinn skili ráðherra tillögum eigi síðar en 1. febrúar á næsta ári.

Herra forseti. Ég vil koma því að í þessari umræðu að ég tel að sveitarfélögin eigi að fá hlutdeild í veiðigjaldinu. Um þetta hefur m.a. Samband íslenskra sveitarfélaga ályktað. Miklar breytingar hafa orðið á veiðum og vinnslu í sjávarútvegi eins og við þekkjum og hafa sveitarfélögin þurft að takast á við margvíslegar breytingar vegna þeirra. Störfum við sjávarútveg hefur fækkað mjög og því þurfa sveitarfélögin og byggðirnar að mæta með einhverjum hætti. Kvótakerfið hefur leitt til mikillar hagræðingar í sjávarútvegi og fækkunar starfa í veiðum og vinnslu. Veiðigjaldið hefur einnig leitt til hagræðingar í greininni, því fylgir fækkun starfa en fátt kemur í staðinn. Sjávarbyggðirnar hafa þurft að líða fyrir hagræðingu í sjávarútveginum vegna fækkunar starfa og síðan fækkunar íbúa. Þarna verða sem sagt breytingar sem samfélagið og sérstaklega samfélög á landsbyggðinni þurfa að takast á við. Auk þess hafa mörg hver sveitarfélögin lagt út í fjárfestingar sem tengjast sjávarútvegsfyrirtækjunum. Útfærslan á hlutdeild sveitarfélaganna í veiðigjaldinu er ekki einföld en að sjálfsögðu framkvæmanleg ef viljinn er fyrir hendi.

Umgjörðin í sjávarútvegi þarf að vera þannig að útvegurinn geti verið arðbær og tekist á við samkeppni á erlendum mörkuðum. Áhyggjur í þessum efnum hafa fyrst og fremst beinst að litlum og meðalstórum fyrirtækjum og eru það réttmætar áhyggjur. Einnig þarf að huga að umhverfinu, að nýting auðlindarinnar sé umhverfisvæn, og að sjálfsögðu að fiskstofnarnir séu nýttir af skynsemi. En við megum ekki gleyma að huga að samfélaginu, að það samfélag sem verður fyrir beinum áhrifum vegna nýtingar auðlindarinnar nái að dafna. Þekking, tækniframfarir og krafa um aukna hagræðingu hafa afgerandi áhrif á fjölda starfa í veiðum og vinnslu og þá jafnframt á íbúafjölda og stöðu sjávarútvegssveitarfélaganna.

Til þess að sveitarfélögin geti brugðist við þeim breytingum sem fylgja hagræðingu er nauðsynlegt að þau fái hlutdeild í sérstaka veiðigjaldinu eins og ég hef hér rakið. Það er ósanngjarnt og óeðlilegt að þau sveitarfélög sem eru í raun að taka á sig afleiðingar af hagræðingu í sjávarútvegi þurfi að bera þær afleiðingar ein og óstudd. Það má milda með því að þau fái eðlilega hlutdeild í gjaldinu og geti þá betur tekist á við þær breytingar sem kallað er eftir. Auk þess hefur verkefnum sveitarfélaganna fjölgað stöðugt. Nýjasta verkefnið sem ríkið hefur fært sveitarfélögunum án þess að nægilegir fjármunir fylgi er nýtt þjónustuform fyrir fatlaða, svokallað NPA, og við höfum rætt hér í þessum sal. Skattstofnar sveitarfélaganna eru stöðugir og skatttekjur traustar en verkefnum þeirra fjölgar stöðugt, eins og áður segir, og launakostnaðurinn eykst en tekjurnar ekki.

Herra forseti. Sjávarútvegurinn er burðarstólpi í íslensku efnahagskerfi og mjög mikilvægur mörgum samfélögum á landsbyggðinni. Um 79% atvinnutekna í fiskveiðum og -vinnslu koma frá launafólki á landsbyggðinni. Það er fróðlegt að skoða fleiri tölur í þessum efnum. Árið 2016 var hlutdeild atvinnutekna sem rekja má til sjávarútvegs 29% á Vestfjörðum, 20% á Austfjörðum, 18% á Vesturlandi, 15% á Suðurnesjum og 14% á Norðurlandi.

Ef við tökum Vestmannaeyjar sérstaklega sem dæmi þegar kemur að veiðigjöldunum má geta þess að fyrir fiskveiðiárið 2016/2017 greiddu fyrirtæki í Eyjum veiðigjöld fyrir 609 millj. kr. Fyrir fiskveiðiárið 2017/2018 greiddu þau 1.063 milljónir og inni í þeim tölum er ágústmánuður ekki. Skattspor fyrirtækja í sjávarútvegi í Vestmannaeyjum skiptir síðan milljörðum árlega. Sem dæmi má nefna tölur frá 2015. Þá var t.d. skattspor Vinnslustöðvarinnar rúmlega 3,1 milljarður kr. Á sama tíma sér ríkisvaldið sér ekki fært að halda úti fæðingarþjónustu í Vestmannaeyjum og er það með öllu óásættanlegt í rúmlega 4.000 manna eyjasamfélagi þar sem samgöngur eru ótryggar. Skurðstofunni við Heilbrigðisstofnun Vestmannaeyja var lokað fyrir nokkrum árum og þar með lögðust fæðingar af í Eyjum. Fæðandi konur þurfa að ferðast upp á land til að eiga börn sín með tilheyrandi óþægindum og kostnaði fyrir fjölskylduna. Skert þjónusta með þessum hætti getur leitt til fólksfækkunar í viðkomandi byggðarlögum, það hafa rannsóknir staðfest.

Mikilvægt er að stjórnvöld tryggi góð rekstrarskilyrði greinarinnar og horfi ekki fram hjá þeim miklu útflutningshagsmunum sem eru í sjávarútvegi. Sjávarútvegurinn er auk þess leiðandi í nýsköpun þar sem fjárfesting er lykilatriði. Veiðigjaldið eins og það er í dag horfir til bestu ára greinarinnar. Það er því nauðsynlegt að stilla það af til framtíðar þannig að það sé í takt við afkomu sjávarútvegsins hverju sinni. Eins og hv. þm. Ásmundur Friðriksson rakti hér fyrr eru horfur ekkert sérstaklega bjartar fram undan í uppsjávarveiðum. Hugsanlega er makríllinn að hverfa jafn skjótt og hann kom, sú mikla búbót sem hann var þjóðinni á erfiðum tímum.

Mikilvægt er að viðhalda fjölbreytileika í greininni og gjaldtakan þarf að taka mið af því. Gjaldtakan má hins vegar ekki bitna sérstaklega á landsbyggðinni eins og hún hefur haft tilhneigingu til að gera. Veiðigjaldið þarf að vera sjálfbært til framtíðar og má ekki koma í veg fyrir eðlilegar fjárfestingar. Íslensk sjávarútvegsfyrirtæki keyptu afurðir af íslenskum tækni- og þjónustufyrirtækjum fyrir tæpa 50 milljarða árið 2016 og munar um minna. Virðisaukinn fyrir ríkissjóð er hér heilmikill. Þessu má ekki gleyma í umræðunni um sjávarútveginn. Fjárfestingar sjávarútvegsfyrirtækja skipta hagkerfið miklu máli. Brýnt er að sátt ríki um þessa undirstöðuatvinnugrein okkar. Ábyrgðin í þeim efnum liggur hjá greininni sjálfri og stjórnvöldum. Sumir aðilar í útgerð hafa hagað sér með þeim hætti að það dregur úr tiltrú manna á sjávarútveginum. Heilu byggðarlögin hafa farið mjög illa út úr sölu veiðiheimilda eins og við þekkjum. Lítið hefur farið fyrir samfélagslegri ábyrgð handhafa þessara veiðiheimilda og einungis gróðasjónarmið ráðið ferðinni. Salan á veiðiheimildum er lögleg en ég tel að útgerðin verði einnig að spyrja sig að því hvort hún sé ávallt siðferðilega rétt. Það er engri atvinnugrein hollt að stöðugt ósætti ríki um rekstrarumhverfið, ósætti sem útgerðin sjálf hefur í mörgum tilfellum orðið völd að og má, eins og áður segir, einkum rekja til sölu veiðiheimilda.

Herra forseti. Sjávarútvegurinn er okkur ákaflega mikilvægur og kemur til með að vera það um ókomna framtíð vegna þess að hágæðamatvælaframleiðsla verður stöðugt verðmætari. Kerfið þarf að vera sjálfbært og það þarf að vera byggðafesta innan greinarinnar.

Íslenskt þjóðlíf einkenndist af sterkri framfaratrú um aldamótin 1900 sem skilaði okkur fullveldi, skilaði okkur frjálsu og fullvalda ríki árið 1918. Framfaratrúin var ekki síst sjávarútveginum að þakka. Með sjálfstæðum sjávarútvegi um 1880 gerbreyttist búseta Íslendinga. Skútuútgerðin blómstraði, sjávarútvegurinn tók að eflast mjög og sjálfstæður sjávarútvegur leiddi til þéttbýlismyndunar. Sjósókn fór mjög vaxandi og sífellt fleiri höfðu atvinnu af sjómennsku og fiskverkun sem færði landsmönnum öllum hagsæld.

Herra forseti. Gleymum ekki mikilvægi sjávarútvegsins fyrir þjóðina nú þegar við fögnum 100 ára afmæli fullveldisins.