149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[17:03]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir hans ræðu og hef hug á að ræða við hann um nokkur þau atriði sem hann gerði að umtalsefni. Í fyrsta lagi sagði hv. þingmaður að hann vildi fremur sjá þessa gjaldtöku, sem ég skil sem svo að hann leggist ekki gegn, samflokksmaður hans sér alla vega ýmsa kosti á því frumvarpi sem hér liggur fyrir, en hann hefði hug á að þróa þessa gjaldtöku þannig að hún ætti við um fleiri auðlindir en eingöngu sjávarauðlindina. Það fannst mér koma fram í máli hans. Ég held að ég geti tekið undir með hv. þingmanni að þessa hugsun eigum við að innleiða á fleiri sviðum, gagnvart fleiri auðlindum.

Ég vil þá spyrja hv. þingmann hver afstaða hans flokks sé til þess að í stjórnarskrána komi auðlindaákvæði, ákvæði um sameign þjóðarinnar á auðlindum, sem væri ákveðið undirstöðuatriði fyrir slíka gjaldtöku, hvort sem er í sjávarútvegi eða annars staðar. Nú hefur gjaldtaka í sjávarútvegi verið staðfest og það kemur fram í lögum um stjórn fiskveiða að auðlindin sé sameign þjóðarinnar. En væri ekki eðlilegt að við fengjum slíkt ákvæði í stjórnarskrá til að renna stoðum undir þessa hugsun gagnvart öðrum auðlindum sem ég taldi hv. þingmann vera að reifa hér í ræðu sinni? Ég óska bæði eftir afstöðu hans og hans flokks til þess máls.