149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[17:06]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og fyrir að vekja athygli mína á þessari þingsályktunartillögu sem hann vísar til. Ég fagna því að mér fannst hv. þingmaður taka jákvætt í það að við leggjum saman í ákvæði í stjórnarskrá um sameign þjóðarinnar á auðlindum, sem er það ákvæði sem þjóðin hefur lýst mjög skýrum vilja til þess að fá í stjórnarskrá, samanber ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu 2012.

En hv. þingmaður kom aftur inn á sveitarfélögin í sinni ræðu. Ég get tekið undir að það er full ástæða til að ræða tekjustofna sveitarfélaga almennt. En er hv. þingmaður, og ég vil fá það fram hér, þá að ræða það að auðlindagjöld verði sérstaklega eyrnamerkt sveitarfélögum og þá öllum sveitarfélögum? Eða eingöngu þeim sveitarfélögum þar sem auðlindirnar er að finna? Því þá erum við náttúrlega að hverfa frá þeirri hugsun að auðlindirnar séu sameign þjóðarinnar.

Í mínum huga er eðlilegast að auðlindagjöld séu innheimt af ríkinu í ríkissjóð, sem er okkar sameiginlegi sjóður, enda er um að ræða sameign þjóðarinnar og gildir þá einu hvort við búum, í tilfelli sjávarútvegsins, í sjávarbyggð eða inni í landi, á Egilsstöðum.

Ég hefði talið eðlilegt að auðlindagjöld sem slík rynnu einfaldlega í ríkissjóð. En hins vegar væri full ástæða til að ræða hlutverk jöfnunarsjóðs og frekari tekjustofna sveitarfélaga í takt við þau auknu hlutverk sem þeim eru falin.

Ég yrði mjög þakklát ef hv. þingmaður gæti skýrt fyrir mér hvort það er hugmynd Miðflokksins að auðlindagjöld verði eyrnamerkt sveitarfélögum og hvort það eigi þá við um öll sveitarfélög. Ég ætla að segja það hér, af því að ég fæ ekki að koma aftur í andsvar við hv. þingmann, því miður, að ég hefði nú talið það affarasælla að auðlindagjöldin rynnu einfaldlega í ríkissjóð en hlutur sveitarfélaganna í öllum tekjustofnum væri tekinn til sérstakrar umræðu.