149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[17:08]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra. Ég rakti þetta í ræðu minni varðandi sveitarfélögin og hlutdeild í veiðigjaldinu sérstaklega. Samband íslenskra sveitarfélaga hefur ályktað í þessa veru og rökin eru þau að það er margvíslegur kostnaður sem sveitarfélögin hafa lagt í hvað varðar sjávarútvegsfyrirtækin. Auk þess hefur fækkað í sjávarútvegs-sveitarfélögunum vegna hagræðingar í sjávarútvegi. Þetta eru helstu rök fyrir því að það sé eðlilegt að þau fái hlutdeild í veiðigjaldinu til þess að mæta þeim breytingum sem hafa átt sér stað með hagræðingu í sjávarútveginum.

Miðflokkurinn hefur ekki tekið neina sérstaka afstöðu til þess hvort sveitarfélögin eigi að fá hlutdeild í fleiri auðlindum eða rentu af auðlindum þannig að ég get svarað því hér og nú.

Ég ræddi sérstaklega sveitarfélögin og vil að mörgu leyti taka undir það hjá hæstv. forsætisráðherra að auðlindagjaldið, ef það verður þá lagt á fleiri auðlindir landsins, fari þá í ríkissjóð. En hvað sveitarfélögin varðar og veiðigjöldin þá eru þarna tengsl, þ.e. hagræðingin hefur skilað sveitarfélögunum kostnaði og óhagræði, m.a. vegna fækkunar íbúa o.s.frv. Í því tilliti tel ég eðlilegt að þau fái hlutdeild í því og Samband sveitarfélaga hefur ályktað í þá veru.