149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[17:26]
Horfa

Inga Sæland (Flf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsætisráðherra andsvarið. Já, 48 dagar eru það. En ég gleymdi alveg aðalmálinu í sambandi við 48 dagana, það er að menn fái að ráða sjálfir hvenær þeir fara þessa 48 daga til að sækja sjóinn, séu ekki bundnir við einhverja ákveðna daga, jafnvel þó að allt sé í kaldakoli og í steik, að þeir fái alveg frelsi sitt, geti valið sína daga sjálfir. Það finnst mér ofsalega fallegt.

Ég vil persónulega bara handfæraveiðar frjálsar og tel þær alveg frábærustu veiðar og ekkert að því.

Hvað varðar afkomutenginguna er það einfaldlega þannig, eins og ég sé það fyrir mér, og þá er ég að tala um auðlindagjaldið, ekki tekjuskattinn, alveg sama hvort það væru 2.000 eða 3.000 eða 7.000 bátar eða útgerðir sem um er að ræða, þá værum við búin að færa þessa álagningu yfir til skattstjóra, sem hefur ekki hummað það fram af sér að koma með, einmitt í sambandi við tekjuskattinn, eins og 200.000 mismunandi útkomur á álagningu skatta, þá gæti hann alveg eins komið með mismunandi álagningu í sambandi við veiðigjaldið afkomutengda vegna þess að útgerðirnar hljóta að gefa upp rekstrarreikning sinn árlega. Það verður náttúrlega að tengja afkomuna við rekstrarreikning hverrar útgerðar fyrir sig. Og ég ítreka við hæstv. forsætisráðherra, ég er ekki að tala um tekjuskattinn, ég er að tala um auðlindagjaldið.