149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[17:28]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Ég skil það þá svo að hv. þingmaður sjái það fyrir sér þannig að auðlindagjaldið yrði lagt á með svipuðum hætti og tekjuskattur. Ef ég kann þetta rétt var vísað til þess í greinargerð að sú hugmynd væri í skoðun að taka upp sérstaka álagningu á tekjuskatt í formi auðlindagjalds sem væri einstaklingsmiðuð. En það frumvarp sem liggur hér fyrir bætir hins vegar úr þeim annmörkum sem eru á innheimtu á veiðigjaldinu núna.

Mig langar að spyrja hv. þingmann af því að hún ræddi hversu hátt gjaldið ætti að vera. Hér er verið að leggja til 33% gjaldhlutfall í auðlindagjaldi miðað við þann stofn sem skilgreindur er í frumvarpinu. Hvað sér hún fyrir sér í því? Myndi hún vilja sjá hærra gjaldhlutfall eða fara einfaldlega strax yfir í breytingu sem væri einhvers konar sérstök álagning á tekjuskatti?

Og svo langar mig að spyrja um mitt stóra áhugamál fyrst hv. þingmaður nefndi stjórnarskrárbreytingar og við hittumst nú reglulega og ræðum þær: Telur hv. þingmaður ekki nauðsynlegt að við ljúkum þeirri vinnu að koma okkur saman, eins vel og við getum gert, um ákvæði um sameign þjóðarinnar á auðlindum í stjórnarskrá?