149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[17:31]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Herra forseti. Við skulum hafa það hugfast að í síðustu viku, þegar frumvarp um veiðigjöld var tekið út úr nefnd, ákvað ríkisstjórnin líka, einmitt í sömu viku, og þetta snýst um forgangsröðun ríkisstjórnarinnar, að fresta loforðum sínum til aldraðra og öryrkja. Á sama tíma er verið að lækka útgjöld útgerðarinnar vegna veiðigjalda um hátt í 5 milljarða. Þetta eru staðreyndir, þetta hefur komið fram á fundum nefndarinnar. Það skilja allir vanda smærri útgerða og ég held að það vilji allir koma til móts við þær. En það er verið að lækka veiðigjöldin á alla greinina þannig að í rauninni er það stórútgerðin sem mest hagnast. Ég efast um að það hafi upphaflega verið tilgangurinn með því að fara þessa leið. Ég trúi því einfaldlega ekki. En ég hef hins vegar mjög miklar efasemdir um að þetta sé rétta leiðin.

Það er margt sem við hæstv. forsætisráðherra, sem ég vil þakka fyrir að vera stödd hér í salnum, erum sammála um. Við erum sammála um auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Við viljum tvímælalaust fá auðlindaákvæði í stjórnarskrá. Við erum sammála um það og ég trúi ekki öðru en að við getum báðir verið afar stoltar af íslenskum sjávarútvegi. Hann er búinn að þróast mjög vel, hann er til fyrirmyndar. Það er að mörgu að huga þegar við skoðum hvaða breytingar hafa orðið til þess að hann hefur orðið svona öflugur. Það er frjálst framsal, það er kvótakerfið og síðan allur þessi gríðarlega öflugi hliðaratvinnuvegur sem hefur komið í gegnum sprotafyrirtækin. Við erum sammála um þetta og við vorum sammála um tímabundinn veiðirétt, tímabundin réttindi. Hér í dag eru átta flokkar og það hefur komið fram í umræðunni um þetta mál að það eru sjö flokkar á því að veiðiréttindin eigi að vera tímabundin. Það er einn flokkur sem vill hafa ótímabundin réttindi og það er Sjálfstæðisflokknum. Allir aðrir flokkar vilja tímabundin réttindi með einum eða öðrum hætti. Um þetta erum við forsætisráðherra sammála.

Það ánægjulega er, eftir allan hávaðann sem er búinn að vera, að það er ákveðinn þráður sem ég er sannfærð um að við getum fundið til að ná raunverulegri sátt. Það er lag núna að leita að ákveðnum þáttum til að stuðla að sáttum. Af hverju segi ég það? Jú, út af því að í sáttanefndinni — og þá kem ég kannski að því sem við forsætisráðherra erum ósammála um. Það er ljóst eftir ræðu hennar í gær að hún er ósammála því að það eigi að ná sátt um sjávarútveginn. Ég er að gera mér grein fyrir því núna.

Það má kannski gagnrýna mig fyrir það að á sínum tíma þegar ég var sjávarútvegsráðherra beitti ég mér fyrir þverpólitískri sáttanefnd um gjaldtöku í sjávarútvegi. Ég þurfti að taka svolitla rimmu við Sjálfstæðisflokkinn um að ríkisstjórnin skyldi ekki vera í meiri hluta í nefndinni. Ég beitti mér fyrir því að allir flokkar væru með sinn fulltrúa. Það þýddi að stjórnarandstöðuflokkarnir voru með fleiri fulltrúa. Því miður fór það allt eins og það fór. En þrátt fyrir þessa nýju ríkisstjórn, sem er bráðum búin að vera við völd í heilt ár, og þrátt fyrir upphafskafla stjórnarsáttmálans er ekki verið að leita að sáttinni. Það er það sem mér finnst svo mikil synd. Þess vegna hlýt ég að spyrja hæstv. forsætisráðherra.

Fyrsta spurningin: Af hverju var ekki reynt að leita sátta? Það er ekki brýn þörf fyrir að haska sér af stað og reyna að bjarga einhverju sem er í óefni komið. Það er ekki knýjandi nauðsyn á að ýta í gegn 5 milljarða lækkun á veiðigjöldum á útgerðina. Það er ekki knýjandi þörf. Umhverfið er afar gott og hagfellt fyrir sjávarútveginn, ekki bara lækkandi olíugjald og lækkandi gengi sem er mjög hagfellt fyrir sjávarútveginn heldur ekki síður sú staðreynd að framlegðin í sjávarútvegi verður ávallt meiri, 10–15% aukning tekna á síðustu árum. Það eru allar aðstæður fyrir sjávarútveginn að anda aðeins, fara með pólitíkinni því að allir flokkar hafa nefnilega gert gott varðandi sjávarútveginn. Vinstri flokkar og hægri flokkar hafa tekið stórar ákvarðanir sem hafa haft gríðarlega mikla þýðingu fyrir sjávarútveginn.

Ég hef hvað sem tautar og raular trú á forsætisráðherra, ég hef það enn þá. Ég hef ekki hvikað frá þeirri skoðun minni að forsætisráðherra sé manneskja sem geti leitt í gegn ákveðnar málamiðlanir, ákveðnar sættir. Ekki bara við ríkisstjórnarflokkana til að halda ríkisstjórninni saman heldur líka að fara í samráð við stjórnarandstöðuna. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort henni finnist það gott samráð þegar sjávarútvegsráðherra hefur ekki einu sinni talað við stjórnarandstöðuna í aðdraganda þessara frumvarpa sem hafa verið lögð fram. Það var ekkert samráð haft við stjórnarandstöðuna, ekki neitt. Það var farið í einhverja fundaherferð um landið en samráð við stjórnarandstöðuna var ekkert.

Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra: Hvað liggur á þegar allar aðstæður eru hagfelldar? Þetta er önnur spurningin. Fyrsta spurningin var um sáttina, af hverju ekki var reynt og hvað liggi á. Ég þarf að fá útskýringu á því vegna þess að það er ekkert mál fyrir ríkisstjórnina að ýta máli til hliðar og skoða það mjög gaumgæfilega þegar það hriktir eitthvað í stoðum ríkisstjórnarinnar. Það er orkupakkinn. Það á að ýta því máli til hliðar, skoða það aðeins betur. Fínt ef menn vilja skoða það aðeins betur. Það gildir nákvæmlega það sama um þetta mál. Menn eru hræddir um að í þriðja orkupakkanum sé hugsanlega eitthvert fullveldisafsal, sem er algert kjaftæði, en um leið er sama hópnum nokkurn veginn sama um hvað er að gerast með sameign þjóðarinnar, að það sé hugsanlega verið að grafa undan sameignarhugtaki þjóðarinnar.

Af hverju segi ég það? Jú, út af því að auðlindanefndin árið 2000 sagði það skýrt. Það er vitnað til auðlindanefndarinnar í frumvarpinu og skírskotað til þeirrar niðurstöðu. Niðurstaða auðlindanefndarinnar var skýr: Tímabundnir samningar eru lykilatriði til að tryggja og undirstrika sameignarhugtak þjóðarinnar og sameign þjóðarinnar á auðlindinni.

Þess vegna hlýt ég að spyrja: Er ekki rík ástæða í réttlætistaug Vinstri grænna, hugsjónataug Vinstri grænna, að staldra við til þess að sporna einmitt við því að það festist í sessi að útgerðin hugsanlega eignist hefðarrétt á fiskveiðiauðlindinni?

Ég vil undirstrika að ég er sammála auðlindaákvæðinu. Við þurfum að knýja það í gegn. En það eitt og sér dugar ekki til.

Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra um tímabindinguna og það er þriðja spurningin. Það kom mjög skýrt fram hjá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins í gær og kom fram hjá helsta talsmanni Sjálfstæðisflokksins í sjávarútvegsmálum að hann liti á þetta sem ótímabundin réttindi. Eini flokkurinn, eins og ég gat um, sem lítur svo á. Ég vil spyrja hæstv. forsætisráðherra hvort með þessari leið, með þessu frumvarpi, sé verið að greiða fyrir veiðirétt sem ótímabundinn rétt. Eru þetta eilífðarréttindi að mati forsætisráðherra, fyrir veiðigjöldin? Gæti forsætisráðherra hugsanlega samþykkt það sem segir í 1. gr. í breytingartillögu okkar í stjórnarandstöðunni að veiðigjald sé gjald fyrir tímabundin afnot af fiskveiðiauðlindinni? Getur forsætisráðherra hugsað sér að samþykkja bara þá klásúlu til þess að tryggja það að við verjum fyrir hönd þjóðarinnar fiskveiðiauðlindina, sem er sameign okkar allra?

Við erum ekki að tala um að kollvarpa kerfinu. Við erum stolt af sjávarútveginum. Ég vil ekki kollvarpa kerfinu en það er lykilatriði að við reynum að einbeita okkur að því sem við hugsanlega getum náð samkomulagi og sátt um og við höfum talað um í gegnum tíðina. Það er að tímabinda samningana. Við erum ekki að leggja til eina eða neina uppboðsleið eða markaðsleið, við erum ekki að tala um endurúthlutun, við erum meira að segja, og það má gagnrýna okkur fyrir það, að nota sömu gjaldafrumforsendur og ríkisstjórnin talar um. Bara til þess að ná þessu eina markmiði, að tímabinda samningana fyrir þjóðina, fyrir sameign okkar allra.

Ég spyr því hæstv. ráðherra og svarið er gríðarlega mikilvægt: Lítur ráðherra á þetta sem ótímabundinn rétt? Er leið ríkisstjórnarinnar sú að festa í sessi ótímabundinn rétt eins og Sjálfstæðisflokkurinn lítur á? Ég vil gjarnan að því verði svarað.

Þetta eru nokkrar spurningar. Hvað liggur á? Af hverju getum við ekki geymt þetta, alla vega hugsanlega farið þá leið, eins og Indriði H. Þorláksson bendir á, að taka bara lítinn hluta, þetta með að færa gjaldlagninguna fram í tíma? Við erum ekkert á móti því. Reyna að koma til móts við allra smæstu útgerðirnar með þessum afslætti, þó að það sé umdeilanlegt, en geyma stóra pakkann, gjaldahlutann, og reyna að ná samkomulagi um þann þátt. Af hverju er það ekki reynt?

Ég hvet hæstv. forsætisráðherra, sem við erum mjög stolt af, ekki síst núna þegar við erum með kvennaráðstefnuna í okkar glæsilega tónlistar- og ráðstefnuhúsi. Ég hef trú á því að forsætisráðherra vilji í hjarta sínu stuðla að sátt. Þess vegna hryggir það mig og mér finnst það óskaplega leitt að forsætisráðherra beitti sér ekki fyrir því í ríkisstjórn þegar frumvarpið var lagt fram að rétta fram sáttarhönd til stjórnarandstöðunnar í þessu máli. (Forseti hringir.) Það hryggir mig. Mér finnst það dapurlegt og mér finnst sorglegt að sjá að ríkisstjórnin er að knýja í gegn frumvarp með hugsanlega mjög afdrifaríkum afleiðingum.