149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[17:44]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Herra forseti. Það hefur einmitt komið fram á fundi nefndarinnar að gjaldið er mjög ógagnsætt. Hvað sem menn segja er þetta háð pólitísku valdi hverju sinni. Forsendurnar eru alltaf háðar pólitísku valdi og vilja hverju sinni.

Við erum alveg sammála um að færa þetta nær í tíma en það þýðir ekki að fela sig á bak við það að þessi lækkun sé bara út af því. Það er ekki þannig. Ég vil benda enn og aftur á grein Indriða H. Þorlákssonar hvað það varðar. Hún er þess virði að hún verði lesin í þessu samhengi. Þannig að það er allt bara hjóm eitt.

Ég er hins vegar, og hef alltaf verið, á þeirri skoðun að fiskveiðiauðlindin sé sameign þjóðarinnar og það á að greiða fyrir aðgang að þeirri auðlind. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að pólitíkin eigi ekki að ákveða hvert gjaldið er. Það á að vera markaðurinn, einmitt til þess að forðast að sérhagsmunaöflin geti stýrt því nákvæmlega, eins og þau eru að gera núna, hvernig þau haga verðlagningunni.

Ég spyr enn þá og mér fannst það aumt svarið varðandi sáttina: Af hverju, bæði hvað varðar fyrra og seinna frumvarpið, var ekki einu sinni haft samband við stjórnarandstöðuna? Ekki einu sinni, ekki í vor og ekki í haust. Það hefur ekkert verið gert til þess að ná raunverulegri sátt.

Ég spyr: Er það þannig sátt, einhliða nálgun sem forsætisráðherra vill beita sér fyrir? Verður það hennar arfleifð að skilja þetta eftir þannig að hafa ekki stoppað málið, ekki beitt sér fyrir því að koma að sátt? Það kostar pólitísk átök, ég veit það, við samherja í ríkisstjórn. En það er þess virði upp á lengri tíma litið.

Ég vil ítreka spurningu mína, hún skiptir gríðarlega miklu máli, um ótímabundin réttindi. Telur forsætisráðherra þetta vera ótímabundin réttindi útgerðarinnar eða hvað telur hún þetta vera?