149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[17:46]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er náttúrlega ekki hægt að ræða eðlilega þinglega meðferð sem óvönduð vinnubrögð. Ég hlýt að ítreka það að hér var horfið frá því að keyra mál í gegn á einhverjum ægihraða í vor, enda ekki eðlilegt, og nýtt frumvarp lagt fram sem hefur fengið fullkomlega eðlilega þinglega meðferð, sem ég held að við hljótum að geta verið sammála um að er eðlilegur farvegur fyrir stjórnarfrumvarp.

Hv. þingmaður spyr hvort ég telji að aflaheimildir séu varanlegar. Að sjálfsögðu ekki. Við erum með fiskveiðistjórnarlög sem við þekkjum báðar mjög vel þar sem kemur fram að (Gripið fram í.) auðlindin er sameign þjóðarinnar (Gripið fram í: Hversu langan ...?) sem þýðir að Alþingi og löggjafinn á hverjum tíma getur ákveðið með hvaða hætti (ÞKG: Til hversu langs tíma?) henni er úthlutað. (Gripið fram í.) Ég er hins vegar ekki sammála því sem hv. þingmaður leggur hér til og er væntanlega inntak breytingartillögunnar við frumvarp um veiðigjald, þó að hún ætti fremur heima kannski sem breytingartillaga við lög um fiskveiðistjórnarkerfið. Hv. þingmaður talar fyrir því og vill sjá hreina markaðsleið í sjávarútvegi og uppboð á aflaheimildum. Það er að vísu ekki tekið fram í breytingartillögunni, ég veit hreinlega ekki af hverju það er ekki tekið fram. En ég hef hlustað eftir málflutningi þeirra hv. þingmanna Viðreisnar sem hér hafa talað og þau tala fyrir þessari markaðsleið sem ég tel að geti orðið til þess að auka samþjöppun í sjávarútvegi og stangast þar með á við yfirlýst sjónarmið um að við viljum viðhalda ákveðnum byggðasjónarmiðum í kerfinu.

En auðvitað eru heimildirnar ekki varanlegar og það getur ekki verið skilningur neins á lögum um fiskveiðistjórnarkerfi. Þó að við viljum ekki fara þá leið sem hv. þingmenn Viðreisnar hafa talað fyrir, sem er markaðsvæðing sjávarauðlindarinnar, er ekki þar með sagt að við séum að kvitta upp á að heimildirnar séu varanlegar. En ég hlýt að minna á að varðandi þá sáttanefnd sem hv. þingmaður skipaði í tíð sinni sem ráðherra að það voru ekkert allir á eitt sáttir (Forseti hringir.) um að það væri raunveruleg sáttanefnd. Formaður þeirrar nefndar kaus að fara fram á sjónarsviðið og tala sérstaklega (Forseti hringir.) um mína hreyfingu sem andstæðing kerfisbreytinga í sjávarútvegi, (Forseti hringir.)sem mér fannst ekki mjög til þess fallið að auka sátt um sjávarútvegsmál, satt að segja, herra forseti.