149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[17:50]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur kærlega fyrir ræðu hennar. Hv. þingmaður var sjávarútvegsráðherra og þekkir því málaflokkinn sem hér er undir töluvert betur en sú sem hér stendur. Ég spyr hv. þingmann sem væntanlega ferðaðist um allar byggðir landsins og heimsótti allar útgerðir: Er það svo, eins og greina hefur mátt í ræðum hv. stjórnarþingmanna, að allar útgerðir landsins, litlar, meðalstórar og stórar, standi svo illa að hér fari allt í upplausn ef ekki verður að öllu leyti fallist á tillögur hæstv. sjávarútvegsráðherra og núna tillögur meiri hluta atvinnuveganefndar um að stórlækka veiðigjöld upp á fleiri milljarða?

Ég vil í framhaldinu jafnframt spyrja um það hvort að slík hætta sé til staðar fyrir byggðir landsins. Hver hv. stjórnarþingmaður á fætur öðrum hefur komið hingað upp og tilkynnt okkur að byggðirnar muni hreinlega leggjast af hver af annarri ef ekki verður fallist á þessar tillögur ráðherra og meiri hluta atvinnuveganefndar. Mér þætti vænt um ef hv. þingmaður gæti svarað þessu.