veiðigjald.
Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir greinargott svar og verð eiginlega að halda áfram, kannski svolítið á sömu nótum.
Fyrir rétt rúmu ári, þann 19. október 2017, skrifaði hæstv. forsætisráðherra Katrín Jakobsdóttir færslu í aðdraganda kosninga. Ég ætla að fá að lesa upp þessa færslu sem hún skrifar á samfélagsmiðla, með leyfi forseta. Þar skrifar hún.
„Þessar kosningar snúast um að við blásum til sóknar á Íslandi og byggjum upp samfélagið til framtíðar. Það er hægt að fjármagna þessa sókn með ábyrgum og skynsamlegum hætti.“
Segir hún m.a.:
„Við getum hækkað afkomutengd veiðigjöld á útgerðina og tryggt tekjur fyrir afnot af öðrum auðlindum.“
Vegna þessara orða Katrínar þarna fyrir rétt rúmu ári, þegar hv. þingmaður var sjávarútvegsráðherra, langar mig aðeins að spyrja hv. þingmann í framhaldi af því sem ég spurði áðan: Hefur landslagið mögulega breyst þetta mikið á þessu ári? Getur verið að það umhverfi sem útgerðarfyrirtækin starfa í í dag og staða byggða landsins, staða útgerðanna, litlu, meðalstóru og stóru útgerðanna, hafi breyst þetta mikið frá 19. október 2017?