149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[17:58]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf):

Herra forseti. Frá því að ég man eftir mér hefur verið tekist á um sjávarútveg í íslenskri stjórnmálaumræðu með einum eða öðrum hætti. Ég man eftir útfærslu landhelginnar og átökunum sem henni tengdust í upphafi 8. áratugarins og togaravæðinguna í kjölfar þess, þegar leitast var við að efla sjávarbyggðir um allt land með stórfelldum skuttogarakaupum. Ég man eftir sífelldum deilum og áhyggjum af afkomu þeirra fyrirtækja. Ég man eftir ásökunum um að þau stunduðu sum hver bókhaldskúnstir til að sýna afkomu í sem verstu ljósi svo stórfyrirtæki sem áttu bæði togara og fiskvinnslur gætu þá fært hagnaðinn á milli þessara fyrirtækja með alls kyns aðferðum. Ég man líka að það tók Íslendinga u.þ.b. tíu ár að ganga svo nærri þessari mikilvægu auðlind að það þurfti að grípa til örþrifaráða ef ekki átti að eyða henni með öllu.

Kvótakerfinu var komið á árið 1983. Þá var tilteknum fiskiskipum afhentur kvóti á grundvelli veiðireynslu áranna þriggja á undan og reyndust óhemju mikil verðmæti sem þar með voru gefin afmörkuðum hópi. Strax þá var lagður grundvöllurinn að nokkurs konar lénsfyrirkomulagi í íslenskum sjávarútvegi. Verðmæti kvótans margfaldaðist síðan þegar sett voru lög um stjórn fiskveiða árið 1990, en þá var framsal aflaheimilda gefið frjálst, kvótinn fór að ganga kaupum og sölum. Menn tóku að selja hver öðrum óveiddan fisk í sjónum og síðan að bókfæra sem eign þennan veiðirétt og veðsetja og taka lán út á með tilheyrandi fjárstraumi inn í íslenskt samfélag. Það varð til ný stétt auðmanna sem högnuðust ævintýralega á þessum viðskiptum, sumir hverjir, með alls konar afleiðingum fyrir íslenskt samfélag, aukinni stéttaskiptingu og hærra fasteignaverði á völdum stöðum í höfuðborginni, sárindum þeirra sem sátu eftir með sárt ennið og auðn á stöðum sem höfðu kannski lifað um aldir á því að hafa einhver auðugustu fiskimið veraldar rétt utan við túngarðinn en máttu nú allt í einu ekki nýta sér þau.

Segja má að íslenskir útgerðarmenn hafi greitt veiðigjald æ síðan eftir lögmálum markaðarins hverju sinni, nema þeir hafa ekki greitt þetta veiðigjald til eigenda auðlindarinnar, þjóðarinnar og sameiginlegra sjóða hennar eða til þeirra samfélaga sem höfðu nýtt þessa auðlind öldum saman heldur hafa þeir greitt hver öðrum þetta veiðigjald.

Við tók mikil samþjöppun í greininni með tilheyrandi hagræðingu eins og við þekkjum. Reksturinn hefur batnað til mikilla muna og þannig má segja að þessar aðgerðir, sem voru sársaukafullar og oft óréttlátar, hafi skilað íslensku samfélagi í heild vissri hagsæld.

Herra forseti. Eins og ég nefndi í byrjun ræðu minnar hafa geisað deilur um íslenskan sjávarútveg svo lengi sem ég man eftir. Þessar deilur eru vegna þess að mikill fjöldi landsmanna telur að þar hafi gæðunum verið mjög misskipt. Kerfið umbuni alltaf þeim stóru og voldugu og það geri nýliðum mjög erfitt að hasla sér völl.

Þarf þetta að vera svona? Eru heiftúðugar deilur um slíkan grundvallaratvinnuveg þjóðarinnar bara eðlilegur fylgifiskur þrasgefinnar þjóðar eða eru þær óeðlilegar? Eru þær til þess fallnar að eitra andrúmsloftið í samfélaginu almennt og ýta jafnvel undir þá tilfinningu að réttlætið geti aldrei borgað sig í samfélaginu og hagsæld þurfi alltaf að byggjast á rangsleitni og misskiptingu? Er ekki ómaksins vert að reyna að finna leið sem meiri sátt ríkir um og er jafnframt til þess fallin að skila landsmönnum hagsæld?

Það hefur stundum hvarflað að mér að ímynda mér hvernig svona fyrirkomulag hefði komið út í þeirri atvinnugrein sem ég hef starfað í mestalla ævi, sem er bókaútgáfa og skáldskapur. Faðir minn, Thor Vilhjálmsson, starfaði sem rithöfundur og það má kannski ímynda sér að hann hefði árið 1983 fengið mjög góðan kvóta til skáldskapar, skáldsagnakvóta. Ég hefði svo erft þennan kvóta og svo hefði ég aukið við hann með því að skrifa nokkrar bækur sem ég hef skrifað í gegnum tíðina. Aðrir rithöfundar, og kannski alveg sérstaklega ungir rithöfundar, þyrftu svo greiða mér fyrir réttinn til að skrifa skáldskap, skrifa skáldsögur, og setja á markað og svo bara lifði ég á því að selja öðrum höfundum aðgang að þeirri auðlind sem íslenskir lesendur eru. Það væri svo sannarlega bæði óréttlátt og afkáralegt fyrirkomulag sem engum dytti í hug að koma á í lýðræðisríkjum samtímans.

Ég held, herra forseti, að þetta vandamál megi hugsanlega leysa með einhvers konar útfærslu á útboðum á aflaheimildum, enda eru útboð meginregla þegar hið opinbera þarf að deila út takmörkuðum aðgangi að tilteknum gæðum, t.d. eftirsóknarverðum stórframkvæmdum eða tíðnisviðum eða einhvers konar sérleyfum.

Við heyrum oft talað um að íslenskur sjávarútvegur sé sjálfbær. Þegar við tölum um sjálfbærni þarf alltaf að huga að þremur stoðum sem þurfa allar að vera jafn gildar. Það er sú umhverfislega, sú hagræna og sú samfélagslega. Það má segja að kvótakerfið hafi verið tilraun til að skjóta umhverfisstoð undir fiskveiðar okkar, enda mikil ofveiði þá við Íslandsstrendur sem kvótakerfið vissulega vann bug á.

Þegar framsalið var svo samþykkt má segja að hinni hagrænu stoð hafi verið skotið undir kerfið. En það hefur hins vegar verið alveg látið undir höfuð leggjast að huga að þriðju stoðinni sem er þó ekki síður mikilvæg og það er hin samfélagslega stoð.

Þessari umbyltingu á fiskveiðikerfinu hefur fylgt mikil samfélagsleg upplausn. Þessi umbylting hefur haft alveg gríðarlega erfiðleika í för með sér fyrir sjávarbyggðir víða um land. Ef við myndum fara út í einhvers konar útboðsleið værum við kannski að ná fram þremur markmiðum: Að auka jafnræði við úthlutun þessarar þjóðareignar sem nytjastofnarnir við Ísland eru. Við værum að auðvelda nýliðun í greininni með því að lækka verulega leigugjald aflaheimilda. Og við værum að færa ákvörðun um upphæð gjaldsins fyrir veiðiréttinn frá stjórnmálamönnunum og til greinarinnar sjálfrar. Enda er það fullkomlega óeðlilegt að stjórnmálamenn séu að vasast í slíku.

Samfylkingin, Píratar, Viðreisn og Flokkur fólksins leggja til að málinu verði vísað frá og á sama tíma gengið út frá því að gildandi lög verði framlengd og farið verði eftir ákvæðum þeirra til ársloka 2019. Tíminn verði svo nýttur til að vinna betri tillögur sem eru betur til þess fallnar að skapa frið í samfélaginu.

Til vara leggja svo Samfylkingin, Píratar og Viðreisn fram breytingartillögur þar sem rætt er um að gera aflahlutdeild tímabundna og að frá og með 1. janúar 2019 skuli Fiskistofa skipta aflahlutdeild handhafa í hverri og einni tegund í 20 jafna tímabundna hluta. Þá skal fyrsti hlutinn gilda í eitt ár, annar hlutur í tvö ár og þannig koll af kolli. Frá og með 1. janúar 2020 skal árlega endurúthlutað til 20 ára þeim 5% aflahlutdeildar í hverri tegund sem er laus og ótímabundin. Það á með öðrum orðum að fyrna 5% árlega af aflahlutdeildum og rætt hefur verið um að bjóða út 20%. Í þessu myndum við hafa hliðsjón af öðrum sambærilegum útboðum í Færeyjum nýlega sem þykja hafa gefist vonum framar. Afrakstrinum mætti verja til lækkunar veiðigjalda og til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga eða í átakssjóð Byggðastofnunar.

Að mínu mati væri útboðsleiðin til þess fallin að auka réttlæti við úthlutun á sameign þjóðarinnar og þar með líka til að auka sátt í landinu um þennan grundvallaratvinnuveg, sem er fullkomlega óeðlilegt að slíkt ósætti ríkir um sem raun ber vitni. Hún myndi auðvelda nýliðum að hasla sér völl í greininni og eins og fyrr segir myndi hún færa greininni sjálfri valdið yfir því hvað telst vera hæfilegt gjald fyrir heimildirnar. Útboðsleiðin nýtur raunar fylgis meðal a.m.k. fjögurra af þeim átta flokkum sem nú eiga sæti á Alþingi, enda er hún í anda þeirrar jafnaðarstefnu sem meiri hluti þjóðarinnar aðhyllist. Í stefnu Pírata segir, með leyfi forseta:

„Íslenska ríkið, fyrir hönd íslensku þjóðarinnar, eiganda auðlindarinnar, skal bjóða aflaheimildir upp til leigu á opnum markaði og skal leigugjaldið renna í ríkissjóð og skulu öll úrslit uppboða vera opinberar upplýsingar.“

Hjá Viðreisn er svipað upp á teningnum, með leyfi forseta:

„Í stað veiðileyfagjalds verði ákveðinn hluti kvótans settur á markað á hverju ári. Þannig fæst sanngjarnt markaðstengt afgjald fyrir aðgang að auðlindinni og umgjörðin um atvinnugreinina verður stöðug til frambúðar. Leiðin hvetur til hagræðingar og hámarksarðsemi þegar til lengri tíma er litið. Einnig opnast leið fyrir nýliðun.“

Samfylkingin hefur lengst allra flokka talað fyrir slíkri leið og í stefnu hennar segir m.a.:

„Úthluta á aflaheimildum á jafnræðisgrundvelli til hóflegs tíma með gagnsæjum hætti. Nýir fiskstofnar og aukning á kvóta eiga strax að fara í útboð.“

Í stefnu Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs segir eftirfarandi:

„Endurúthlutun felst annars vegar í tímabundinni ráðstöfun leyfa og skal að hluta vera bundin útgerðarformum og veiðiaðferðum, og hins vegar í uppboði, að hluta bundin svæðum landsins og sveitarfélögum og þeim aðilum boðið að skilgreina leiðir til úthlutunar.“

Herra forseti. Hér er um að ræða mál sem varðar alla landsmenn. Ég er hræddur um að ekki hafi farið fram nægilega víðtæk umræða um allt samfélagið um þetta mál, enda var það ekki sett í samráðsgátt og þar með ekki hvatt til almennrar umræðu um málið meðal almennings. Þegar hafa þó komið fram ýmsar marktækar gagnrýnisraddir frá aðilum sem við hljótum að leggja við hlustir þegar tjá sig. Þar nefni ég sérstaklega, eins og margir aðrir hafa nefnt á undan mér, Indriða H. Þorláksson hagfræðing, sem tjáð hefur sig með býsna afdráttarlausum hætti um þetta frumvarp í grein sem birtist í Kjarnanum á dögunum.

Mig langar að nefna sérstaklega eitt úr hans gagnrýni sem fleiri hafa raunar tekið undir og varðar gamalkunnugt vandamál þegar kemur að samkrulli veiða og vinnslu í bókhaldi stórra og öflugra sjávarútvegsfyrirtækja. Indriði bendir á að útgerð og vinnsla sé hér á landi iðulega í eigu sama aðila og að stór hluti kaupenda íslenskra fiskafurða séu líka félög í eigu fiskútflytjenda. Þessi eignatengsl geri það mögulegt að flytja rentuna frá veiðum og þá annaðhvort til vinnslunnar eða kaupendanna í viðskiptum tengdra aðila. Það sé því ekki hægt að byggja matið á heildarrentu fiskveiðanna á veiðunum einum heldur verði að taka vinnsluna með í reikninginn, eins og gert var í lögunum frá árinu 2012, sem hæstv. forsætisráðherra vék hér góðu að áðan. Rétt er að taka fram að ekkert fyrirtæki sem hafði eingöngu tekjur af vinnslu greiddi veiðigjald. Nú er vikið af þessari leið, segir Indriði, með því m.a. að bera fyrir sig að margar konur starfi við fiskvinnslu og gagnrýnir Indriði þetta.

Samkeppniseftirlitið kom líka með alvarlega athugasemd í sinni umsögn, með leyfi forseta:

„Verði fyrirliggjandi frumvarp að lögum að óbreyttu mun sú skekkja í aflaverðmæti sem fram kemur í bókhaldi samþættra útgerða annars vegar og annarra útgerða sem selja afla á fiskmörkuðum hins vegar óhjákvæmilega valda mismunun í útreikningi á veiðigjaldi viðkomandi útgerða. Með hliðsjón af framangreindu vill Samkeppniseftirlitið beina þeim tilmælum til atvinnuveganefndar að brugðist verði við þeirri skekkju sem fram kemur í bókhaldi viðkomandi útgerða við vinnslu frumvarpsins áður en það verður að lögum.“

Þannig mætti áfram telja, herra forseti, en ég læt hér staðar numið að sinni. En mig langar þó að lokum að vitna til niðurlags í áðurnefndri grein Indriða H. Þorlákssonar, með leyfi forseta:

„Það er alls óviðunandi að þjóðin fái einungis smánargjald fyrir afnot af auðlind sinni, nánast ölmusu sem rétt dugar til að greiða þann kostnað sem fylgir því að sjá til þess að auðlindin verði ekki eyðilögð heldur nýtt með hagkvæmum hætti. Við framlagningu frumvarpsins töldu margir þetta atriði þjónkun við hagsmuni útgerðareigenda sem von stæði til að yrði leiðrétt í þinginu. Með framkomnu áliti atvinnuveganefndar er ljóst að hún hefur ekkert lært af sneypuför sinni sl. vor og er slegin þeirri blindu að hlutverk Alþingis sé ekki að gæta almannahags heldur ganga erinda sérhagsmunaafla. Marklaus falsrök um samtímaálagningu eru engin afsökun í því efni og hagsmuni smáútgerða hefði mátt tryggja án þess að færa stórútgerðarmönnum margfalda hagsbót um leið.“