149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[18:17]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Mér finnst nú rétt, þar sem sérstaklega var óskað eftir því að ég ætti samtal við fulltrúa stjórnarandstöðu, að ég nýti þann tíma sem ég hef hér í húsi til að gera það. Mig langar að spyrja hv. þingmann — fyrir utan hvað mér fannst skemmtilegt að hlusta á hann ræða um skáldskap. Ég ætla ekki að spyrja um það heldur langar mig að spyrja um tvennt.

Hv. þingmaður nefndi sérstaklega reynslu Færeyinga af útboði. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvernig hann telji að sú reynsla hafi gefist í ljósi þess að þar er ekki verið að bjóða út fisk í lögsögu Færeyinga heldur eingöngu fisk úr deilistofnum utan lögsögu. Telur hann það viðunandi árangur að enginn nýr aðili hafi bæst í hóp þeirra sem nýta fiskveiðiauðlindina í gegnum útboðið? Telur hann að slíkt kerfi á Íslandi hefði ekki þá áhættu í för með sér eins og aukna samþjöppun, eins og Færeyingar hafa verið að ræða um frá því að útboðið fór fram?

Ég tel nokkuð víst út frá ræðu hv. þingmanns og raunar líka ræðu hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur að breytingartillagan sem hér liggur fyrir, sem þó er ekki orðuð þannig að hún snúist um útboð, snúist um útboð á aflaheimildum og ætti kannski betur heima sem breytingartillaga við lög um fiskveiðistjórnarkerfið, þótt það sé nú alltaf gaman að fá inn tillögu við önnur frumvörp.

Síðan langar mig að spyrja hv. þingmann, sem spurði sérstaklega út í lögin frá 2012 þar sem öll reiknuð renta í veiðum og 80% af reiknaðri rentu í veiðum kæmi inn í reiknigrunn sérstaka veiðigjaldsins: Myndi hann frekar vilja halda því kerfi áfram og sömuleiðis taka tillit til hærri ávöxtunarkröfu rekstrarfjármuni í lögunum eins og þau voru í upphafi?

Ég tel að það sé mjög mikilvægt að við berum þá saman lögin frá 2012, sem flokkur minn og hv. þingmanns settum sameiginlega, og þetta frumvarp og hvernig þau koma mismunandi út. Ég held að það væri mjög fróðlegt fyrir umræðuna í þingsal að fá þann samanburð fram.