149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[18:21]
Horfa

forsætisráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni. Hv. þingmaður segir að tölurnar liggi ekki fyrir, þ.e. samanburðurinn við 2012 og það frumvarp sem hér liggur frammi. En ég var ekki endilega að spyrja um það heldur um grundvallarreglurnar, hvort hv. þingmaður hefði verið sáttari við að þær grundvallarreglur hefðu verið áfram til hliðsjónar, óháð því hvaða tölur kæmi út úr því.

Hins vegar held ég að gagnlegt væri að fá þær tölur fram til þess að fá slíkan samanburð.

Hv. þingmaður nefndi í ræðu sinni að mikilvægt væri að hafa hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar að leiðarljósi. Hann nefndi sérstaklega hin samfélagslegu áhrif, sem ég held að við hv. þingmaður séum sammála um að skipti máli að hafa í huga. Þess vegna er ég hugsi yfir því að þessir þrír flokkar leggi í raun til uppboðsleið. Er verið að leggja til uppboðsleið sem er bundin við landshluta eða sveitarfélög, út frá því hvernig hv. þingmenn tala? Eða er verið að tala um þá leið til að fá sem hæst verð fyrir auðlindina?

Tökum við þá ekki þá áhættu að fórna ákveðnum samfélagslegum áhrifum um leið?

Það myndi ég gjarnan vilja heyra hv. þingmann tjá sig um. Þarna er gert ráð fyrir að öllum afla verði úthlutað með þessum hætti og því er væntanlega verið að taka út fyrir sviga, eða henda í raun fyrir borð öllu sem kallast byggðakvóti eða annað slíkt.

Hefur hv. þingmaður áhyggjur af slíkum samfélagslegum áhrifum?