149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[18:23]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Ég þakka hæstv. forsætisráðherra fyrir. Já, mér finnst full ástæða til að hafa áhyggjur af þeim samfélagslegu áhrifum sem af þessu hljótast. Þegar við komum að þessum málum hljótum við ævinlega að hafa í huga hvernig þau koma við viðkomandi samfélög. Ég tel, eins og ég var að reyna að rekja í þessu litla sögulegu yfirliti í ræðu minni, að ekki hafi nægilega verið hugað að því í gegnum tíðina hvernig hinar harkalegu vendingar og breytingar sem urðu á fiskveiðistjórnarkerfinu komu við þessi samfélög.

Ég held að það liggi alveg fyrir í tillögum okkar að við gerum einmitt ráð fyrir því að byggðirnar, hinar viðkvæmu byggðir víða um land sem hafa lifað af hafinu í gegnum aldirnar, njóti þessara aðgerða.