149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[18:24]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni að mörgu leyti ágæta ræðu. Ég hjó sérstaklega eftir því að hann gat um upphaf kvótakerfisins 1983 og talaði um að þar hefði verið úthlutað takmörkuðum gæðum og allir sem hefðu fengið úthlutun hefðu grætt peninga. Það var ekki svo. Ástæðan fyrir þessari breytingu er sú að mönnum var bannað að sækja í sjóinn með sama hætti og þeir gerðu. Þar af leiðandi skertist frelsi fólks til að reka fyrirtæki sín.

Og fyrst ágætur og hv. þingmaður nefndi hér frábært skáld, föður sinn, ef það hefði sætt sömu skilmálum og hv. þingmaður hefði erft þau réttindi þannig. Hann að vísu er erfði skáldagáfuna og gerir það mætavel. Ég er ekki viss um að það hefði verið mikið eftir af skáldum í landinu 1983 ef þetta kerfi hefði verið sett og þeim verið bannað að skrifa jafn margar bækur eða jafn mörg skáldverk og þau þá gerðu. Er hugsunin sú hjá hv. þingmanni að það fylgi engin skerðing á því ef sett eru takmörk á það hversu miklu þú mátt afkasta? Það er það sem var gert 1983. Þess vegna sáu útgerðirnar sjálfar um að hagræða, það kom niður á fullt af byggðarlögum, milliútgerð lagðist af. Með sama hætti hefði farið fyrir skáldsagnagerð á Íslandi, þeim hefði fækkað sem hana hefðu stundað því að þeir mættu ekki skrifa jafn mikið og þeir annars hefðu gert.

Ég sé hér að hluti af því að mæta þessum vanda er inni í tillögum stjórnarandstöðunnar, sem hv. þingmaður styður, hugmyndir um uppbyggingasjóð landsbyggðar. Ég hefði gjarnan viljað heyra hvernig hv. þingmaður sér þeim fjármunum ráðstafað sem þangað eiga að renna og hverjir eigi í rauninni að njóta þeirra gæða sem inn í þann sama sjóð verða lögð.