149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[18:26]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. sjávarútvegsráðherra fyrir hans góða andsvar. Það er alveg rétt að þetta voru takmörkuð gæði sem var úthlutað þarna. Það sem við erum að gagnrýna í sífellu er að aðgangur að auðlindinni fór síðan að ganga kaupum og sölum og þjóðin fékk ekki rentu sína af því. Því var sem sagt úthlutað ókeypis.

Varðandi hugsanlegan uppbyggingarsjóð landsbyggðar og hvernig eigi að verja þeim fjármunum sem þar kynni að safnast má hugsa sér það á ótal vegu. Það þarf ekki endilega að vera um að ræða uppbyggingu í frumatvinnuvegum þjóðarinnar sem við höfum þróað hér um aldir heldur má sjá fyrir sér alls konar nýsköpun, ekki síst stórátak í samgöngumálum, bæði samgöngumálum í eiginlegum skilningi og eins þeim samgöngum sem snúa að internetinu og tölvutengingum, þannig að fólk geti búið hvar sem er og unnið við hvað sem er.

Ég held að það sé grundvallaratriði við uppbyggingu landsbyggðarinnar að reyna að snúa af braut fábreyttara atvinnuhátta.