149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[18:30]
Horfa

Guðmundur Andri Thorsson (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. sjávarútvegsráðherra seinna andsvar. Ég tek undir að hæstv. sjávarútvegsráðherra sýndi dugnað og stóð sig vel í að halda fundi víða um land og kynna sjónarmið sín fyrir þeim sem þá fundi sóttu. Ég vil alls ekki taka það af hæstv. ráðherra.

En það breytir því ekki að málið var ekki í samráðsgáttinni. Ég get í sjálfu sér ekkert gert í því. Það breytir því ekki heldur að málið hefði mátt vera betur rætt í samfélaginu, sem hefur að undanförnu logað af umræðum um mál sem óvíst er að komi einu sinni fram á þingi í febrúar, þ.e. þriðja orkupakkann.