149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[18:31]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Guðmundi Andra Thorssyni tókst að halda 20 mínútna ræðu nánast án þess að minnast á frumvarpið sem er til umræðu. Hann gerði það þó aðeins síðustu mínúturnar.

Þingmaðurinn var auðvitað að fjalla um lögin um stjórn fiskveiða, hvað hann vildi hafa öðruvísi. Ég skal taka þátt í þeirri umræðu. Ég hef mikið velt fyrir mér þessari útboðs- eða uppboðsleið sem menn tala gjarnan um í Samfylkingunni og leggja að jöfnu við réttlæti, jafnræði.

Þess vegna vil ég spyrja hv. þingmanninn: Telur hann að ríkisvaldið geti núna innleyst þær aflaheimildir sem eru búnar að ganga kaupum og sölum í fjölda ára og farið í útboð með þær? Veit þingmaðurinn af hverju var árið 1983 farið í þau málefnalegu sjónarmið við úthlutun kvóta að þeir fengju hann sem höfðu veiðireynslu? Getur hann ímyndað sér að það hafi verið á grundvelli gildandi stjórnarskrár að þeir sem sóttu sjóinn, löngu áður en löggjafanum datt í hug að setja í lög að þetta væri sameign þjóðarinnar, hvað sem það nú þýðir — að þau réttindi hafi ekki verið varin af stjórnarskránni? Menn sóttu sjóinn löngu áður en til varð jafnvel ríkisvald, heldur hv. þingmaður að veiðirétturinn sé ekki varinn? Þannig að menn geti bara komið núna og sagt: Heyrðu, við eigum þetta. Eins og þetta sé hús sem við eigum hér.

Auðvitað eigum við Ísland, við eigum miðin, við eigum verðmætin en þetta er ekki eins og að eiga hús og leigja (Forseti hringir.) eða selja það. Telur þingmaðurinn að hægt sé að innleysa þetta og bjóða út?