149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[18:35]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alla vega gott að vita að því verður ekki kippt undan útgerðum með einu pennastriki. Þá er hv. þingmaður væntanlega að tala um einhvers konar fyrningarleið, 20 ár eða jafnvel lengur.

En ég hef þá áhuga á að vita hvernig eigi að bjóða þennan kvóta upp, veiðiheimildirnar. Er það örugglega bara til hæstbjóðanda? Ef það er einhver hæstbjóðandi, halda menn að það verði eitthvert réttlæti úr því? Hverjir halda menn að geti boðið í þetta aðrir en stærstu útgerðirnar? Hvaða nýliðun verður við það?

Ég sé ekkert fyrir mér í einhverju svona uppboði eða útboði, alla vega ekki til hæstbjóðanda. Ef menn ætla að fara að gera þetta með byggðasjónarmiðum og lægra verði og einhverju slíku fær þjóðin væntanlega ekki neitt voðalega mikið fyrir auðlindirnar. (Forseti hringir.) Í mínum huga er þetta allt mjög ruglingslegt, hv. þingmaður.