149. löggjafarþing — 39. fundur,  27. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[18:38]
Horfa

Helga Vala Helgadóttir (Sf):

Herra forseti. Hér er mikið talað um útgerðir sem berjast í bökkum, talað um að ríkisstjórnin sé með þessu veiðigjaldafrumvarpi sínu að ná samkomulagi um að lækka veiðigjöld af litlum útgerðum.

Herra forseti. Það er einmitt ekki verið að því. Hér skal gera best við þá sem eiga mest. Það er ekki verið að búa til eitthvert kerfi sem sérstaklega styður við litlar og meðalstórar útgerðir. Það er blekking.

Hér er líka talað um það, sérstaklega hæstv. sjávarútvegsráðherra, að víðtækt samráð hafi átt sér stað, af því að hæstv. ráðherra fór og heimsótti 11 staði hringinn í kringum landið og talaði við útgerðaraðila. En hversu víðtækt var samráðið við eigendur þeirrar auðlindar sem við fjöllum hér um, sjálft fólkið í landinu? Hvar var samráðið við það? Verið hefur mikil gagnrýni á frumvarpið, t.d. meðal sjómanna sem vita nákvæmlega um hvað málið snýst, vegna þess að þeir horfa á að frumvarpið kunni að skerða tekjur þeirra. Þeir vita hver staðan er. Þeir vita hvernig kaupin gerast á eyrinni.

Indriði H. Þorláksson, hagfræðingur, fyrrverandi ríkisskattstjóri og fyrrverandi ráðgjafi þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra, Steingríms j Sigfússonar, skrifar um veiðigjaldafrumvarp ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur í vefritið Kjarnann. Er málið honum langt í frá ókunnugt, enda starfaði hann um tíma vestur í Bolungarvík hjá Einari Guðfinnssyni heitnum, þá aðallega við að gera upp við trillukarla sem lögðu upp afla hjá frystihúsinu. Þetta gerði Indriði áður en hann hóf hagfræðinám.

Hvers vegna er ég að fjalla um það úr ræðustól Alþingis? Jú, vegna þess að ég tel þessa grein ekki bara vera gagnlega þeim þingmönnum sem hér fjalla um veiðigjöld, heldur beinlínis nauðsynlega áður en þeir greiða atkvæði um málið í næstu viku. Margir hafa vitnað til orða Indriða, en vegna þess hversu mikilvægt innlegg ég tel þessa grein vera í þetta mál — ég veit að þingmenn eru uppteknir alla jafna — hef ég ákveðið að lesa hana fyrir þingheim, sem og fyrir þá sem fylgjast með störfum þingsins á þingrásinni, en svo mun vera um nokkur þúsund einstaklinga.

Hefst nú lesturinn, með leyfi forseta:

„Síðastliðið vor var reynt að koma lækkun veiðigjalda í gegnum þingið. Fékk sú tilraun hægt andlát eftir að flett hafði verið ofan af því. Gallar núgildandi laga um veiðigjöld eru þó slíkir eftir kukl við þau á undanförnum árum til að færa eigendum útgerðanna aftur það lítilræði af auðlindarentu fiskveiða, sem þjóðin fékk með lögum um veiðigjöld 2012, að breyting á þeim var óhjákvæmileg. Boðaðri endurskoðun laganna var því beðið með nokkurri eftirvæntingu.

Í því frumvarpi til laga um veiðigjöld sem liggur frammi er margt til bóta. Snúið er aftur til þeirrar hugsunar að hlutverk laganna sé að skilgreina þann hluta virðisauka í sjávarútvegi sem rekja má til auðlindarinnar og að reikna þjóðinni hlutdeild í honum. Frumvarpið þróar aðferð til þessa, sem er til mikilla bóta frá því sem áður var, þótt ekki sé hún gallalaus.

Í frumvarpinu er hins vegar ekki svarað þeirri spurningu hvert sé réttmætt tilkall þjóðarinnar til arðs af auðlindinni. Í stað þess er sett fram reikniregla sem miðast við meðaltal síðustu ára, nokkurs konar „status quo“ í því efni. Það skortir vilja, getu eða þor til að taka á stóru spurningunni í þessu máli, þ.e. hvaða tilkall á þjóðin til arðs af sinni eigin auðlind? Frumvarpið, ef að lögum verður, getur hins vegar skapað grunn fyrir málefnalega umræðu um þá spurningu í stað karps um tæknilegan tittlingaskít eins og verið hefur.

Frumvarpið felur í sér að stefnt er að því að finna þann arð sem rekja má til réttar á nýtingu fiskveiðiauðlindarinnar eftir að greidd hafa verið aðföng, vinnulaun og fjármagnskostnaður þar með talið eðlilegt endurgjald fyrir fjármagn. Þetta er skilyrði þess að unnt sé að telja veiðigjöldin auðlindagjöld. Horfið var frá þessu með fyrstu breytingum á lögunum frá 2012 undir því yfirskini að slíkt væri of flókið í framkvæmd. Í stað þess var stofn veiðigjalda miðaður við bókhaldsstærð sem ræðst af fjármálalegum froðufærslum og er mótanlegur af hagsmunaaðilum. Þannig tókst að lækka veiðigjöldin þar til skepnan snerist gegn skapara sínum og gengishagnaður kom honum í koll. Stórútgerðin krafðist breytinga, sem leiddi til óðagotsins í sumarbyrjun.

Þótt frumvarpið byggi á sömu hugsun og lögin frá 2012 víkur það frá þeim í nokkrum atriðum. Í fyrsta lagi er horfið frá því að leggja raunhæft mat á þann hluta rentu í sjávarútvegi sem fluttur er til fiskvinnslu eða fisksölu vegna markaðsbrests og eignatengsla. Í öðru lagi eru frávik í því hvernig kostnaður við fjármagn er fundinn eða áætlaður. Í þriðja lagi er mismunur í því hvernig rentu eða veiðigjaldi er deilt niður á fisktegundir og í fjórða lagi er skipting fiskveiðirentunnar milli útgerðar og eiganda auðlindarinnar með ólíkum hætti. Verður fjallað um hvert þessara atriða hér a eftir.

Auðlindarenta myndast þegar aðgangur að nýtingu auðlindar er takmarkaður t.d. náttúrulega, svo sem í virkjun vatnsfalla, eða með lögum eins og í úthlutun fiskveiðiheimilda. Með óheftum aðgangi allra að auðlindum og fullkominni samkeppni myndast ekki auðlindarenta.

Nær öll fiskvinnsla í landinu er í eigu útgerða eða öfugt eða útgerð og vinnsla er í eigu sama aðila. Stór hluti „erlendra“ kaupenda íslenskra fiskafurða eru félög í eigu fiskútflytjenda. Eignatengslin gera það mögulegt að flytja rentuna frá veiðunum til vinnslunnar eða hinna „erlendu“ kaupenda með verðlagningu í viðskiptum tengdra aðila. Án eignatengsla og með samkeppni um kaup á fiskafurðum væri engin fiskveiðirenta hjá vinnslunni eða kaupendum afurðanna. Mat á heildarrentu af fiskveiðum getur því ekki byggst á veiðunum einum saman og nauðsynlegt er að leggja mat á rentu í veiðum og vinnslu í heild sinni.

Í lögunum frá 2012 var farin sú leið að meta rentu í vinnslu og veiðum með sama hætti. Frá heildartekjum án innbyrðisviðskipta var dreginn kostnaður, þar með talið fjármagnskostnaður í veiðum og vinnslu. Þar sem öll rentan á uppruna í veiðunum var henni jafnað niður á aflamagnið. Sumir sem ekki skildu eða vildu ekki skilja þessa aðferð héldu því fram að með þessu væri verið að leggja veiðigjald á vinnsluna, sem er ekki rétt. Ekkert fyrirtæki sem hafði eingöngu tekjur af vinnslu en ekki veiðum greiddi veiðigjald.“

— Ég endurtek: Ekkert fyrirtæki sem hafði eingöngu tekjur af vinnslu en ekki veiðum greiddi veiðigjald.

„Í frumvarpinu er vikið af þessari leið og rentan nær eingöngu reiknuð út frá veiðunum. Með því er litið fram hjá því að verð til vinnslu eða sölu milli tengdra aðila er lægra en eðlilegt er og rentan í fiskveiðum vanreiknuð sem því nemur. Fiskverð er oft talið vera a.m.k. 20% undir markaðsverði fyrir botnfiskafla og að munurinn sé enn meiri fyrir uppsjávarafla. Að milliverðlagning eigi sér stað er viðurkennt í frumvarpinu og reynt að bæta úr því með því að reikna 10% álag á rentu uppsjávartegunda. Þessi leiðrétting er þó ófullnægjandi. Það eru ekki góð vinnubrögð að líta fram hjá augljósum staðreyndum sem skipta miklu máli og nota ekki tiltækar aðferðir til að taka þær til greina. Með því er litið fram hjá hluta þeirrar auðlindarentu sem þjóðin á tilkall til og lögð blessun yfir vafasamt atferli þótt löglegt kunni að vera.

Hvati er þegar fyrir hendi til vanreiknings á söluverði með milliverðlagningu, m.a. vegna tengingar launa sjómanna við fiskverð, en getur einnig verið fyrir hendi af skattalegum ástæðum o.fl. Með því að láta ranga milliverðlagningu einnig hafa áhrif á veiðigjöld verður þessi hvati sterkari en áður. Það að taka ekki þá rentu sem flutt er til fiskvinnslu eða -sölu með í útreikning veiðigjalda mun því ekki aðeins ræna þjóðina hluta auðlindarentunnar heldur einnig þrýsta fiskverði niður og rýra þannig hlut sjómanna og sjálfstæðra útgerða sem eru háð sölu afurða til keppinauta sinna.

Kjarninn í skilgreiningu auðlindarentu er að draga frá tekjum af nýtingu auðlindarinnar allan kostnað sem nýtingaraðilinn hefur af starfseminni. Hvað almennan rekstrarkostnað varðar, þ.e. launakostnað og kaup á efnislegum aðföngum og þjónustu, liggur hann fyrir í bókhaldi rekstrarins. Öðru máli gegnir um kostnað við að leggja starfseminni til varanlega rekstrarfjármuni svo sem skip og veiðarfæri, verksmiðjur og húsnæði. Raunverulegur kostnaður við það liggur ekki fyrir í reikningum. Tilsvarandi bókhaldsfærslur, afskriftir og vextir lúta reglum eða eru ákveðnar með þeim hætti að tengsl við raunverulegan kostnað geta verið lítil. Af þessum ástæðum er litið framhjá bókhaldi en fjármagnskostnaður reiknaður eftir því hve mikið fé er bundið í rekstrinum, endingartíma fastafjármuna og eðlilegum vöxtum. Hjá skattyfirvöldum eru nákvæmar upplýsingar um fjárfestingar fyrirtækja áratugi aftur í tímann og því auðgert að meta stofnverð fastafjármuna og endingartíma þeirra og vextir eru miðaðir við það sem almennt er.

Í frumvarpinu nú er vikið af þessari leið og í staðinn eru bókhaldslegar afskriftir lagðar til grundvallar. Afskriftir eru vissulega eðlilegur þáttur fjármagnskostnaðar en gera verður fyrirvara á notkun bókhaldslegra afskrifta sem ráðast af reglum í skattalögum sem víkja oftast mjög mikið frá efnahagslegum afskriftum. Til dæmis eru skip sem hafa endingartíma sem mældur er í tugum ára afskrifuð á átta árum. Afskriftir geta því vikið mikið frá raunverulegri verðrýrnun, ofmetið hana og sveiflast mikið. Líklegt er að þetta fyrirkomulag muni vera hvati til offjárfestinga.

Bókfærðir vextir með verðbótum og gengisbreytingum er sjáanlega ónothæfur mælikvarði á fjármagnskostnað auk þess sem skuldir fyrirtækja ráðast af ýmsu öðru en fjárfestingum í fastafjármunum. Frumvarpið gerir réttilega ekki ráð fyrir að bókfærðir vextir verði notaðir en í stað þess eru vextir áætlaðir vera sama fjárhæð og afskriftir en svo vill til að á síðustu árum hafa þessar tvær stærðir verið áþekkar. Þótt engin rök séu færð fyrir þessari niðurstöðu er hún ekki að öllu órökrétt. Endingartími fastafjármuna í útgerð er líklega ekki fjarri 25–30 árum, sem svarar til 3–4% afskrifta sem er ekki fjarri þeim vöxtum sem leggja má til grundvallar. Þrátt fyrir það er þessi leið vafasöm og mun t.d. tvöfalda áhrif af sveiflum í fjárfestingum og afskriftum.“

Og áfram heldur Indriði Þorláksson, með leyfi forseta:

„Torskildasti hluti frumvarpsins er líklega það að reikna gjaldstofn veiðigjalds sérstaklega fyrir einstakar aflategundir í stað þess að deila veiðigjaldi á þær með svokölluðum þorskígildum. Aðferð frumvarpsins er ekki flókin í reynd en krefst nokkuð umfangsmikillar gagnaöflunar og úrvinnslu sem ætti þó að vera RSK innan handar að gera. Ekki virðist fræðilegur munur á þessum aðferðum til að jafna veiðigjöldunum niður á tegundir en ákvörðun þorskígilda var ætíð miklum annmörkum háð og breytingin er væntanlega til bóta.

Þau ár sem liðin eru frá því að veiðigjöld voru fyrst lögð á sem auðlindagjald hefur umræða um kjarna málsins, þ.e. eðlilegt endurgjald fyrir nýtingu fiskveiðiauðlindarinnar, fallið í skuggann af þrasi um tæknilega útfærslu. Einnig hefur verið reynt að halda því fram að með veiðigjöldum sé verið að skerða hag bæjarfélaga eða svæða. Rök skortir fyrir slíkum staðhæfingum. Rétt ákveðin auðlindagjöld gera það ekki. Þau falla eingöngu á eigendur útgerðanna og breyta ekki rekstrarforsendum eða því hvað starfsemin skilur eftir þar sem hún fer fram.

Enga umræðu um skiptingu rentunnar er að finna í frumvarpi þessu þótt það gæti orðið grundvöllur fyrir umræðu um þetta meginatriði auðlindastefnu. Forðast er að ræða það. Engin tilraun er gerð til að rökstyðja álagningu veiðigjalda, hvert sé markmið þeirra og hvaða rök standi til þess að þau eigi að vera eins og frumvarpið greinir. Reyndar er gengið í öfuga átt þegar lagt er til að tiltölulega veikri markmiðsgrein núgildandi laga sé breytt á þann veg að í stað orðalagsins „til að tryggja þjóðinni í heild hlutdeild í þeim arði sem nýting sjávarauðlinda skapar“ kemur „til að tryggja þjóðinni í heild beina og sýnilega hlutdeild í afkomu við veiðar á nytjastofnum sjávar“. Markmiðið er sem sé ekki lengur að tryggja þjóðinni hlutdeild í arði af eigin auðlind heldur það eitt að hlutdeildin eigi að vera bein og gagnsæ. Hvað svo sem það orðalag merkir er ljóst að því marki verður náð hver svo sem veiðigjöldin verða.

Ábyrgðarmenn frumvarpsins koma sér undan því að ræða meginatriði málsins, skiptingu rentunnar. Í stað málefnalegs rökstuðnings er lagt til að litið verði til meðalhlutfalls veiðigjalda af reiknaðri afkomu af veiðum skv. aðferð frumvarpsins á síðustu 10 árum en í greinargerðinni segir: „Með frumvarpinu er lagt til að gjaldhæð veiðigjalds taki mið af vegnu meðaltali veiðigjalds sem hlutfalls af bakreiknuðum reiknistofni frumvarpsins fyrir árin 2009–2018. Orða má þetta svo að með þessu sé byggt á ákvörðunum Alþingis um veiðigjald á þessum árum, sem hafa verið umbrotaár í íslensku atvinnu- og stjórnmálalífi, en veiðigjöld hafa verið til umræðu á flestum eða öllum löggjafarþingum þessa tíma. Til mikils er unnið ef unnt er að ná viðunandi niðurstöðu eða sátt um reiknistofn og hæð veiðigjalds með þessu sem staðið geti til nokkurrar framtíðar.““

Áfram heldur Indriði um það sem stendur í greinargerðinni:

„Með þessu er ranglega verið að segja að frumvarpið feli í sér óbreytt ástand og gefið í skyn að það sé eðlilegt. Það tímabil sem valið er er þó fjarri því að vera eðlilegt og enn síður verður sagt að álagning veiðigjalda endurspegli einhverja sátt um fjárhæð þeirra. Fyrsti hluti tímabilsins eru ár þegar veiðigjald var ekki lagt á sem auðlindagjald en ákveðið af gæslumönnum útgerðar í ráðuneytinu og náði því aldrei að vera nema lítill hluti þess kostnaðar sem ríkissjóður hefur af sjávarútvegi. Þá koma tvö ár þar sem veiðigjöld eru vissulega hugsuð sem auðlindagjöld en höfðu ekki náð því marki sem stefnt var að í þágildandi lögum og síðasti hluti tímabilsins eru ár þar sem hagsmunir útgerðareigenda hafa aftur náð yfirhöndinni og mulið gjaldið niður í lítið eitt.“

Indriði fjallar svo um smíði greinargerðar frumvarpsins og talar þar um að það beri þess merki að gæslumenn hagsmuna útgerðareigenda hafi að minnsta kosti óbeint stýrt penna þegar greinargerðin var rituð. Ég ætla að leyfa mér vegna tímaskorts að stökkva yfir þann hluta en hvet alla til að lesa þann kafla. Ég vík aftur að því sem kemur í lok þessa kafla Indriða Þorlákssonar, en þar segir:

„Greinargerð frumvarpsins endurómar mörg stef úr grátsöng útgerðarinnar. Veiðigjöldin dragi úr fjárfestingu í sjávarútvegi, dragi úr tæknilegum framförum, skerði samkeppnisstöðu, leggist á landsbyggðina o.fl. Staðhæfingar þessar eiga það sameiginlegt að vera hentifræði, styðja hagsmuni málflytjandans, þær eru auðtrúanlegar og slá ryki í augu þeirra sem ekki hafa forsendur eða tök á að rýna þær en eru ekki studdar neinum efnislegum eða fræðilegum rökum.“

Og Indriði Þorláksson spyr: „Hver er rentan af fiskveiðum og hver eiga veiðigjöld að vera?

Lög um veiðigjöld hafa þann tilgang að veita þjóðinni hlutdeild í rentunni af fiskveiðiauðlindinni. Það skýtur því skökku við að engin alvarleg tilraun er gerð í frumvarpinu til að greina hver þessi auðlindarenta er, hvorki með sjálfstæðum hætti né með því að byggja á fyrri heimildum og athugunum. Engar upplýsingar er þar að finna um forsendur „afkomu“-reikningsins svo sem heildartekjur af veiðum og vinnslu, launakostnað og annan kostnað, eignir, afskriftir og vexti. Þessar stærðir eru nauðsynlegar til að vega og meta fjárhæð veiðigjaldsins. Ekki hefði síður verið fróðlegt að upplýst hefði verið um hvernig þessar stærðir skiptast eftir stærð og greining á eignarhaldi í útgerð og fiskvinnslu. t.d. hvernig það skiptist milli landsvæða.

Ekki er þó skortur á aðgengilegum upplýsingum. Hagstofa Íslands hefur áratugum saman birt hagtölur um sjávarútveg og skattyfirvöld hafa í fórum sínum nákvæmar upplýsingar um fjárhag sjávarútvegsfyrirtækja, sem hefði verið hægt að láta vinna úr, m.a. um eignir þeirra.“ […]

„Þrátt fyrir skort á upplýsingum í greinargerð frumvarpsins má fara nærri um þetta atriði. Samkvæmt frumvarpinu eiga veiðigjöldin að miðast við 33% af „afkomu“ eins og hún er skilgreind. Má líta á hana sem nálgun við auðlindarentu. (Forseti hringir.) Sú nálgun er þó kerfislega bjöguð og gróflega vanmetin eins og að framan greinir. Stærsti þáttur þeirrar bjögunar er vafalítið flutningur tekna frá útgerð til vinnslu með óeðlilegri milliverðlagningu og hugsanleg áhrif hennar (Forseti hringir.) á útflutningsverð.“

Nú er ég því miður búin með þann tíma sem mér var veittur í ræðupúlti og hvet þingheim og aðra til að lesa lokin á þessari merku grein Indriða Þorlákssonar.